138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við gerð þessara fjárlaga sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um hefur komið í ljós að ríkisstjórnin er ber að agaleysi við framkvæmd ríkisfjármála á þessu ári. Sömuleiðis er ríkisstjórnin ber að virðingarleysi gagnvart kröfu Alþingis um upplýsingar og vandaða vinnu við gerð fjárlaga. 100 þús. millj. kr. halli ber vott um að ríkisstjórnin hefur gefist upp á verkefnum sínum við að ná tökum á ríkisfjármálunum þrátt fyrir einstakt boð stjórnarandstöðunnar um að ganga til samstarfs við ríkisstjórnarmeirihlutann um að ná niður halla á ríkissjóði. Illa grunduð vinnubrögð og svik við gefin fyrirheit eru því miður yfirskrift þeirra fjárlaga sem hér verða afgreidd í dag.