139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum eins og hér hefur komið fram. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé málaflokkur sem mikilvægt sé að fara gaumgæfilega yfir og ganga þannig frá málum, ef við mögulega getum, að hér verði sem allra virkust samkeppni. Þess vegna kom það mér nokkuð á óvart og olli mér vonbrigðum hvernig við höfum verið að vinna þetta mál.

Ég er með skýrslu sem er nokkuð stór í blaðsíðum talin, um 149 síður, frá Samkeppniseftirlitinu. Hún ber yfirskriftina Öflug uppbygging, opnun markaða og efling atvinnustarfsemi. Það sem mér finnst vera athyglisvert við þessa skýrslu er að verið er að greina ýmsa markaði á Íslandi. Ef ég man rétt eru það um 16 markaðir sem eru greindir alveg sérstaklega. Tekin er fyrir hin ólíkasta starfsemi og það sem kemur manni á óvart — það ætti kannski ekki að koma manni á óvart en maður fær það kannski sjaldan svona svart og hvítt eins og er í þessari skýrslu — er hvað fákeppni er ríkjandi á íslenska markaðnum. Það ætti ekki að koma á óvart af þeirri einföldu ástæðu að hér býr ekki sérstaklega margt fólk ef við berum okkur saman við þau lönd sem við alla jafnan berum okkur saman við. Við erum svo sannarlega sjaldnast að bera okkur saman við þau lönd eða þjóðir sem eru jafnfjölmennar og við. Þvert á móti berum við okkur alla jafna saman við miklu fjölmennari þjóðfélög.

Hér er tekin fyrir fjármálaþjónusta, greiðslumiðlun, vátryggingar, matvörumarkaðir almennt, mjólk og mjólkurafurðir, kjöt og egg, lyfjamarkaður, olíumarkaður, fjölmiðlar, fjarskipti, sjóflutningar, áætlunarflug til og frá Íslandi, flugfrakt, innanlandsflug, landflutningar og fólksflutningar og ýmislegt fleira. Ég held að ég fari rétt með það, virðulegi forseti, að fákeppni er á öllum þessum mörkuðum.

Ég hef einfaldlega mestar áhyggjur af því að þess verði skammt að bíða að við sitjum uppi með þá stöðu sem við höfum oft setið uppi með og hún er einfaldlega sú að viðkomandi fyrirtæki þurfa ekki að verða neitt sérstaklega stór á Íslandi til að verða mjög stór. Við þekkjum það í ýmsum löndum, við getum sagt á alheimsmarkaðnum, að ýmsir aðilar eru gríðarlega stórir á ákveðnum markaði. En hér á Íslandi, við þekkjum það frá Sambandinu, við þekkjum það frá Baugi og öðru slíku, hafa menn tilhneigingu til að verða mjög fljótt stórir á mörgum mörkuðum. Ég held að sú hætta hljóti fyrst og fremst að vera bundin við litla markaði og lítil þjóðfélög. Ég held að það hefði verið skynsamlegt að setjast yfir það hvernig hægt væri að koma í veg fyrir þetta, þ.e. að menn gætu ekki verið markaðsráðandi á mörgum mörkuðum.

Í samkeppnisfræðunum eru menn ekki að reyna að banna það að fyrirtæki geti verið markaðsráðandi og væri mjög erfitt, hugsanlega ómögulegt að koma í veg fyrir það á Íslandi og líka í þeim löndum sem eru miklu stærri og fjölmennari. En á Íslandi erum við í þeirri hættu, að mínu áliti er þetta stærsta einstaka hættan, að aðilar verði stórir á mörgum mörkuðum og öðlist þannig gríðarleg völd og í raun meiri völd en einungis efnahagsleg heldur einnig pólitísk völd. Fjölmiðlalögin, sem voru staðfest á sínum tíma, voru viðleitni til að koma í veg fyrir að aðilar sem væru markaðsráðandi á mörgum mörkuðum eða mjög stórir gætu líka átt fjölmiðlasamsteypu. Það þarf ekki að fara yfir það hvaða hættu á misnotkun það býður heim. Reyndar er það svo að þegar við skoðum þetta tímabil, aðdraganda hrunsins, þá var það örugglega ekki tilviljun að allar viðskiptablokkirnar áttu sinn fjölmiðil.

Ekki er tekið á þessu. Ekki er verið að nálgast þessa hluti. Það er síður verið að kryfja það af hverju Samkeppniseftirlitið beitti ekki þeim heimildum sem það hafði. Ég held að það sé enginn vafi að ein af þeim mistökum sem við höfum gert voru að beita ekki þeim valdheimildum sem Samkeppniseftirlitið svo sannarlega hafði áður og hefur haft. Það hefði verið skynsamlegra að beita þeim og það væri í það minnsta þess virði að fara yfir það hvort það var réttlætanlegt að gera það ekki. Þegar við horfum á íslenska markaðinn, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er stærsti hluti vandans sá hve fámennt þjóðfélagið er. Við erum í þeirri hættu, og sú hætta hefur oft orðið að raunveruleika, að stórir aðilar á íslenskum markaði verða stórir á mörgum mörkuðum. Það veitir þeim gríðarlega sterka stöðu. Það er engum hollt að vera í slíkri stöðu, það hefur leitt af sér ýmsa hluti sem við höfum ekki viljað sjá. En við erum ekkert að nálgast það í þessu frumvarpi, virðulegi forseti.

Ekkert er reynt að fara yfir það hvað miður hefur farið og hvernig við ætlum að bæta það heldur er einungis minnst á ýmislegt sem betur má fara en ég held að í grundvallaratriðum sé ekki hægt að tala um stórar breytingar. Síðan er þetta umdeilanlega atriði, sem meiri hlutinn leggur alla áherslu á að keyra í gegn, þ.e. í örstuttu máli það að brjóta má upp fyrirtæki án þess að það hafi neitt brotið af sér. Vísað var til þess að um væri að ræða sama fyrirkomulag og var í Noregi en við umfjöllun í nefndinni kom í ljós að sú fullyrðing stóðst ekki. Mikið var vísað til Bretlands en það er hins vegar ljóst að þar erum við með annars konar uppskiptingu á ferðinni. Forsendan fyrir því að bresk samkeppnisyfirvöld geti nýtt sér slíkar heimildir er umfangsmikil rannsóknarvinna og það þarf að ganga frá ýmsum hlutum áður en menn fara í slíka uppskiptingu. Því er ekki fyrir að fara hér.

Við höfum verið lengi að vinna þetta mál, ekki bara á þinginu nú í haust heldur líka í vor. Ég spurðist þráfaldlega fyrir um það hvernig menn sæju fyrir sér hvernig þessu yrði beitt og við hvaða aðstæður. Skemmst er frá því að segja að það var ekkert um svör. Ég er því engu nær eftir alla þessa umfjöllun í nefndinni um það hvernig þessu verður beitt í nútíð og framtíð. Það eina sem ég veit er að menn segja að þeir ætli ekki að misnota þetta vald og nota það hóflega. Ég efast ekki um að sá sé vilji aðila en hins vegar liggur það fyrir að allt sem samkeppnisyfirvöld gera eins og sambærilegar stofnanir mun skapa ákveðið fordæmi.

Ég las upp 16 markaði áður sem allir einkennast af fákeppni. Ef menn ætla að beita þessu við einhverjar þær aðstæður þar sem ekki er um brot að ræða, þar sem menn telja einfaldlega skynsamlegt að gera það upp á að auka samkeppnina, þá hljóta þeir að þurfa að beita því á öllum þeim mörkuðum þar sem málum er þannig fyrir komið. Nú getur vel verið að það sé mjög skynsamlegt. Það getur vel verið að við ættum að stefna að því að hvert fyrirtæki eigi bara að vera með 20% markaðshlutdeild eða eitthvað slíkt, ég bara veit það ekki. En það sem ég veit er að við erum ekki búin að fara yfir það og skoða það. Það sem ég veit er að við erum ekki að taka á kjarna vandans. Kjarni vandans er að mínu áliti sá að það er svo auðvelt að verða risastór á Íslandi og taka yfir marga markaði. Það er það sem veldur mér áhyggjum. Þess vegna studdi ég fjölmiðlalögin á sínum tíma því að með þeim vorum við að reyna að koma í veg fyrir að aðilar sem voru gríðarlega sterkir í íslensku efnahagslífi gætu líka stjórnað umræðunni.

Núverandi stjórnarflokkar voru þá í stjórnarandstöðu og börðust hatrammlega gegn fjölmiðlalögunum. Ég var hér og tók þátt í þeirri orrustu. Mér þótti hún að vísu skemmtileg, ég skal alveg gangast við því, en það gekk á ýmsu og endaði með því að því miður skrifaði forseti lýðveldisins ekki undir lögin og það var fullkomlega vonlaust fyrir þingmeirihlutann að vinna þá baráttu vegna þess að allir fjölmiðlar landsins voru á móti okkur. Núna held ég að menn líti þetta öðrum augum. Ég held að dómur sögunnar verði sá að það hafi verið gríðarleg mistök að samþykkja ekki fjölmiðlalögin. Það má þó segja að forseti lýðveldisins hafi bjargað sér fyrir horn með því að beita þessu ákvæði aftur í Icesave-málinu því að það er enginn vafi að dómur sögunnar verði sá að þar hafi hugmyndin um öryggiseftirlit forseta lýðveldisins, eins og var rætt um þegar menn voru að semja stjórnarskrána, virkað.

Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, þá er í frumvarpinu og í umræddum breytingum ekki heldur tekið á augljósum galla í íslenskri samkeppnislöggjöf og í samkeppnisumhverfinu, sem er einfaldlega sá að allt gengur svo gríðarlega hægt. Þegar loksins kemur niðurstaða í mál — segjum að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir væri lítill aðili á lyfjamarkaði, af því að ég veit að hún hefur mikinn áhuga á lyfjamálum, og hv. þm. Pétur H. Blöndal væri einn af risunum þar sem mundi misnota markaðsráðandi stöðu sína til að klekkja á litla aðilanum. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mundi þá kæra til Samkeppniseftirlitsins. Því yrði ágætlega tekið að fá kæruna en það gæti tekið eitt til tvö ár áður en niðurstaðan kæmi. Ég tek þetta dæmi af því að það er ljóslifandi í minninu þegar litli apótekarinn, sem er að vísu ekki lítill í sentímetrum talið og fyrirferðarmikill, vakti athygli á því hversu langan tíma þetta tók í kerfinu, hann hefði getað verið farinn á hausinn áður en niðurstaðan var komin. Í því tilfelli gerðist það að vísu ekki en það geta verið alveg stórbreyttar aðstæður á markaði. Allt þetta, þetta frumvarp, öll þessi vinna í nefndinni, allir aukafjármunirnir sem fara til Samkeppniseftirlitsins munu ekki hjálpa neitt við að flýta málum. Mér þykir það svolítið sérkennilegt eftir það sem á undan er gengið. Ef við ætlum að vinna okkur út úr þessari kreppu og fara í endurreisn þá skiptir máli að hafa virka samkeppni, það er grundvallaratriði. Ef við viljum hafa samkeppniseftirlit held ég að við viljum líka hafa stofnun sem gengur hratt til verka þannig að það virki. Nú erum við að breyta þessu. Nú erum við að setja aukna fjármuni í Samkeppniseftirlitið og mun það hjálpa til hvað þetta varðar? Nei, ekki neitt. Það hefur verið upplýst í nefndinni að þetta muni ekki flýta málum um eina mínútu.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta skrýtin forgangsröð. Mér finnst skrýtið hvernig menn nálgast þetta. Mér finnst stundum, í þessu máli eins og öðrum, að við gefum okkur ekki tíma, í þessu tilfelli hv. þingnefnd, í að kryfja mál út frá þeim aðstæðum sem við búum við en taka þess í stað eitthvað frá útlöndum. Í þessu tilfelli voru forsendurnar sem lagt var upp með ekki réttar og þetta ágæta frumvarp er unnið hjá framkvæmdarvaldinu. Þær fullyrðingar sem lagðar voru fram í byrjun voru bara ekki réttar en samt ætla menn að keyra þetta í gegn. Menn segja: Þetta verður allt í lagi, þetta verður gert mjög skynsamlega og mun leiða af sér góða hluti. En við vitum ekkert um það vegna þess að við höfum ekki fengið nein haldföst rök fyrir því þrátt fyrir alla þessa umfjöllun.

Nú veit ég að menn ætla sér ekki að gera neitt nema gott, ég ætla mönnum ekki neitt annað. En það hefur gerst oft áður í sögunni að menn fara af stað með góðum ásetningi en vegna þess að hlutirnir voru ekki nógu úthugsaðir hefur niðurstaðan ekki alltaf orðið í samræmi við ásetninginn. Hvaða dæmi dettur mér í hug þegar ég er að tala um þetta? Mér detta í hug bresku hryðjuverkalögin. Af hverju voru þau sett? Af hverju samþykkti breska þingið hryðjuverkalögin? Var það til að slæmur stjórnmálamaður, forsætisráðherra, gæti misnotað vald sitt til að ná sér í atkvæði og barið á lítilli þjóð norður í Atlantshafi? Var það þess vegna sem Bretar settu hryðjuverkalögin? Aldeilis ekki. Þeir settu hryðjuverkalögin vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af hryðjuverkum og þeir vildu koma í veg fyrir þau. Það vill bara svo til að þegar Bretar voru að vinna með það mál í þinginu komu þingmenn og sögðu: Við höfum áhyggjur af því að hægt sé að misnota svona mikið vald. Þeir nefndu dæmi sambærilegt við það sem síðar varð, þ.e. að breska heimsveldið, undir forustu eins alversta breska forsætisráðherra sögunnar, Gordons Browns, beitti þeim lögum, til að hífa flokkinn sinn og sjálfan sig aðeins upp í skoðanakönnunum, gegn friðsamri þjóð í miklum vanda. Hann olli með því gríðarlegum skaða og ekki bara íslenskri þjóð heldur líka breskri. En hann gerði það vegna þess að hann taldi réttilega að hann gæti grætt á því pólitískt og um tíma gerði hann það.

Virðulegi forseti. Mér finnst við vera að missa af góðu tækifæri. Í þessu máli eins og í öllum öðrum segja menn: Heyrðu, við tökum þetta bara upp seinna. En það er ekkert áhlaupsverk að fara í mál eins og samkeppnislögin og við vitum að hv. viðskiptanefnd tekur ekki aðra umferð þegar menn eru búnir að klára þetta. Þegar við erum búnir með þetta mál stendur eftir að við erum ekki að flýta málum neitt, ekkert. Það mun taka sama langa tímann að afgreiða mál. Það verður líka þannig að fullt af málum verður vísað frá, m.a. með þeim rökum að þau séu ekki nógu mikilvæg þó svo að menn telji að um markaðsmisnotkun sé að ræða. Það vandamál verður áfram til staðar, við erum ekkert að gera til að leysa það. Meðan við erum að skera heilbrigðisstofnanir og menntastofnanir niður við trog ætlum við að setja aukna fjármuni í Samkeppniseftirlitið. Og er það, virðulegi forseti, til að flýta málum? Nei, það er ekki til þess, þeim verður ekkert flýtt. Við tökum heldur ekki neitt á þessum stóru málum sem er einfaldlega það að á Íslandi geta menn, þótt þeir séu ekki stórir á alþjóðlegan mælikvarða, orðið gríðarstórir. Þeir geta vaðið uppi á hverjum markaðinum á fætur öðrum og þannig fengið völd sem engum er hollt að fá.

Virðulegi forseti. Hér er verið að ganga frá málum eins og þetta vandamál sé ekki til staðar. En allur tíminn fer í að deila um ákvæði sem enginn veit hvernig á að framkvæma. En því ákvæði fylgir m.a. aukning fjárheimilda til stofnunarinnar. Svo verða bara allir að krossa puttana og vona að það leiði eitthvað gott af sér. Mér vitanlega hefur enginn, hvorki forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins né aðrir, getað útskýrt hvernig þessu verður beitt (Forseti hringir.) en samt skal þetta keyrt í gegn og mér þykir þetta vera vond forgangsröðun.