141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann fór í stuttu máli yfir stórt mál. Fjármálaeftirlitið í landinu er eðli máls samkvæmt mikið mál. Það hefur stækkað mikið og eflst á undanförnum árum. En ég segi fyrir mig að ég sakna þess, og þá er ég ekki að deila á stofnunina, ég er að deila á stjórnvöld, að neytendavernd hafi ekki verið komið almennilega og skýrt fyrir hjá okkur. Við erum með þá gríðarstóru stofnun, hún er mjög stór. Ef við berum okkur saman við önnur lönd er íslenska bankakerfið 8% af því danska en íslenska Fjármálaeftirlitið er nærri helmingurinn af danska fjármálaeftirlitinu. Samt sem áður er neytendamálum ekki vel fyrir komið eins og við sjáum, þau eru ekki einu sinni á einum stað.

Hv. þingmaður minntist einnig á slitastjórnirnar. Ég er með yfirlýsingar ráðamanna og sömuleiðis skýr lagafyrirmæli að Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með slitastjórnum. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um kjör slitastjórnarmanna, sem er núna held ég 35 þús. kr. á tímann sem er þvert á það sem ráðamenn hafa haldið fram að ætti að vera, og sömuleiðis um þessi viðskipti milli slitastjórnarmanna og þeirra eigin félaga.

Ég vil spyrja hv. þingmann nánar út í það, hvort hann telji ekki eðlilegt að Fjármálaeftirlitið sinni þeim þætti að skoða þau mál. Ég held að flestum þyki það mjög eðlilegt, því að þetta er stór og mikil fjármálastarfsemi eins og önnur fjármálastarfsemi í landinu.