143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti ályktun 18. janúar 2012 þar sem velferðarráðherra er falið að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í ályktuninni sagði, með leyfi forseta:

„Við vinnuna verði m.a. lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu. Við vinnuna verði faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða lögð til grundvallar.

Frumvarpið verði lagt fram svo fljótt sem verða má.“

Fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson skipaði þriggja manna starfshóp haustið 2012 en tilkynnti um leið að ekki væru forsendur til að afgreiða frumvarp fyrir alþingiskosningarnar.

Ég fékk málið í hendur sem heilbrigðisráðherra og á grundvelli stöðuskýrslu í júní 2013 á síðasta ári ákvað ég að styrkja vinnu nefndarinnar, m.a. með aðkomu sérfræðinga frá innanríkisráðuneyti. Um leið var sett áætlun um vinnu nefndarinnar en hana skipuðu Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, sem var formaður nefndarinnar, Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur og Sigurður Kristinsson heimspekingur.

Liður í þessari áætlun er sú mikilvæga umræða sem við efnum til hér í dag. Staðgöngumæðrun er ekki hversdagslegt viðfangsefni stjórnmála. Þess vegna taldi ég rétt og eðlilegt að gefa nýju Alþingi, þar sem óvenjumikil endurnýjun hefur orðið, tækifæri til að ræða og meta hvaða leiðir best sé að fara þegar og ef Alþingi telur rétt að setja lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er einnig von mín að umræða okkar í dag verði til þess að almenningur fái betri innsýn í viðfangsefnið þannig að opin, fordómalaus umræða eigi sér stað meðal landsmanna.

Ályktun Alþingis um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér ákvörðun af hálfu þjóðþingsins um stefnubreytingu stjórnvalda á sviði sem er til mikillar umræðu hvarvetna í heiminum. Sífellt fleiri ríki og ýmsar alþjóðastofnanir fjalla nú af meiri alvöru en áður og þunga um hvaða stefnu skuli marka um staðgöngumæðrun. Ekkert ríki á Norðurlöndum leyfir staðgöngumæðrun í lögum eða viðurkennir hana með stuðningi opinberrar félags- eða heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld ríkja þar sem staðgöngumæðrun er ekki leyfð standa frammi fyrir því að tryggja verði börnum sem fædd eru af staðgöngumóður í fjarlægu landi sömu réttindi og öðrum, aðgang að velferðarþjónustu og önnur borgaraleg réttindi.

Stefnubreyting á Íslandi á þessu sviði er því vandaverk þar sem taka verður tillit til ýmissa þátta. Í fyrsta lagi hafa afar takmarkaðar rannsóknir verið gerðar á afstöðu og þroska og tengslum barna sem hafa orðið til við staðgöngumæðrun.

Í öðru lagi er ekki hægt að tryggja að löggjöf skili þeim árangri sem að er stefnt vegna flókinna félagslegra þátta, ekki síst vegna staðgöngumæðrunar yfir landamæri.

Í þriðja lagi er hér um að ræða leið til að eignast barn sem læknisfræðileg þekking gerir sífellt aðgengilegra fyrir fleira fólk. Sú þróun er, eins og allir þekkja, löngu hafin á Íslandi með lögum um tæknifrjóvganir, fjölbreyttari lögmæt sambúðarform einstaklinga en áður var og almenna og ófrávíkjanlega viðurkenningu velferðarþjónustunnar þar á. Staðgöngumæðrun er þó enn ólík öðrum leiðum og umdeildari út frá ýmsum siðferðilegum viðmiðum. Þetta á ekki síst við þegar horft er til áhrifa á velferð og heilsu barnsins, staðgöngumóður og tilvonandi fjölskyldu, hugsanlegrar markaðsvæðingar, misbeitingar vegna ójafnrar efnahagslegrar stöðu, hugsanlegs afsals mannréttinda staðgöngumóður með samningi við tilvonandi foreldra o.s.frv. Staðgöngumæðrun sem almenn og sjálfsögð þjónusta sem studd er af hinu opinbera með lagaumgjörð er mjög byltingarkennd stefnubreyting og hefur oft kallað á mikla og harða umræðu.

Í fjórða lagi yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að stíga það skref að móta lagaumgjörð um staðgöngumæðrun sem almennan valkost barnlausra til að eignast börn. Nýjar samanburðarrannsóknir stofnunar Evrópusambandsins á löggjöf Evrópulanda sýna að lagaleg umgjörð staðgöngumæðrunar er mjög ólík og ekki samræmd, hvort sem í gildi er bann eða ekki eða hvernig reglum er háttað sem taka við eftir fæðingu barnsins. Umgjörðin virðist ráðast af menningarlegum og félagslegum þáttum í hverju landi. Á sama tíma er einnig vaxandi þungi í umræðunni um nauðsyn alþjóðasamvinnu og alþjóðlegra reglna vegna staðgöngumæðrunar yfir landamæri.

Sú stefnubreyting sem Alþingi ályktaði um 18. janúar 2012 er að íslensk lög mæli fyrir um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni skuli heimil hér á landi. Í þessu felst að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni er bönnuð en innan ramma velgjörðar sé hún hluti af íslenskri heilbrigðisþjónustu. Kostnaði við hana verði mætt af hinu opinbera og framkvæmd af heilbrigðisstofnunum sem hafi til þess leyfi. Það markmið Alþingis sem skýrast er fram sett er að með því að setja skýrar reglur um staðgöngumæðrun hér á landi dragi úr líkum á því að pör leiti til úrræða erlendis sem hugsanlega geti brotið í bága við alþjóðasáttmála um vernd barna eða fallið undir misnotkun á líkama og sál konu sem gengur með barn.

Bent var á í nefndaráliti meiri hlutans að þegar hafi íslensk pör leitað til staðgöngumæðra í öðrum löndum, t.d. á Indlandi. Með stefnubreytingu yrði hægt að tryggja af Íslands hálfu skilyrðislausan rétt staðgöngumóður til að ráða yfir eigin líkama og því ekki lengur gert ráð fyrir að foreldrar og staðgöngumóðir geri með sér bindandi samning þar eð ekkert samkomulag getur tekið frá konu þann skýlausa rétt að ráða yfir eigin líkama. Þá voru og skilgreind markmið sem bersýnilega er ætlað að takmarka umbreytingaráhrif nýrrar stefnu og lagasetningar og ein skýrasta yfirlýsingin er um móðurhlutverkið þar sem segir að frumvarp um staðgöngumæðrun skuli ekki hrófla við grunnskilgreiningu móðurhugtaksins.

Þá var einnig kveðið á um að það skyldi verða skilyrði aðgengis að staðgöngumæðrun að læknisfræðilegar ástæður hindruðu móður í að eignast barn. Meiri hlutinn taldi mikilvægt að það yrði sett sem skilyrði fyrir tilvonandi foreldra að þeir geti eingöngu nýtt sér staðgöngumæðrun ef kona getur ekki eignast barn af læknisfræðilegum ástæðum.

Alþingi taldi einnig nauðsynlegt að setja viðurlög við brotum á banni við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, „fundinn staður innan hins opinbera heilbrigðiskerfis en ekki utan þess svo að kostnaði verði mætt af kerfinu en ekki komi til sérstakar greiðslur tilvonandi foreldra til staðgöngumóður.“

Forsendur umsóknar um staðgöngumæðrun verði ítarlega skoðaðar en einnig aðstæður parsins sem óskar eftir barninu sem og staðgöngumóður og fjölskyldu.

Virðulegi forseti. Segja má að Alþingi hafi með ályktun sinni árið 2012 brugðist við þeim veruleika að íslenskir ríkisborgarar sæki þegar þjónustu staðgöngumæðra til fjarlægra landa. Á Íslandi getur löggjafarvaldið illa hindrað slíkt, hvort heldur er fyrir fram með einhvers konar banni eða eftir á með því að hindra flutning barna til Íslands sem á sama hátt getur brotið gegn réttindum barnsins. Þess vegna verðum við að horfast í augu við nýjan veruleika, bregðast við honum og innleiða þetta úrræði í íslensk lög. Markmið Alþingis er að leyfa einungis staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni en banna staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Þarna er samspil skilyrða um aðgang, bæði staðgöngumóður og verðandi foreldra, að lögmætu ferli lykilatriði. Því þrengri sem sá aðgangur er því ólíklegra er að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé fær hér á landi enda sé framkvæmdin einungis möguleg á heilbrigðisstofnun sem hafi til þess leyfi.

Við eigum að sjálfsögðu eftir að svara ótal spurningum, m.a. um aðgang fleiri en foreldra, þar sem móðirin er læknifræðilega ófær um að eignast barn, að staðgöngumæðrun. Spyrja má hvort sú afmörkun sé raunhæf og réttlát í ljósi meginreglna laga og mannréttinda. Skýrar reglur geta tryggt lögformlegt sjálfstæði staðgöngumóðurinnar, þ.e. að hún ráði öllum ákvörðunum sem varða eigin heilsu og barnsins, þ.e. að staðgöngumóðir geti tekið allar sömu ákvarðanir og aðrar mæður á meðgöngu og eftir fæðingu allt þar til hún tekur ákvörðun um að afsala sér þessum rétti.

Markmið Alþingis um góð samskipti, velferð barnsins og góð tengsl staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og tilvonandi foreldra og fjölskyldu þeirra er erfitt að uppfylla. Skilgreiningaratriði staðgöngumæðrunar í öllum réttarkerfum er fyrir fram yfirlýsing hennar um að afhenda barnið nánast um leið og það er fætt öðru fólki sem foreldrum. Eitt erfiðasta lögfræðilega og siðfræðilega úrlausnarefnið sem tengist staðgöngumæðrun er hvenær og hvernig eigi að ganga frá afsali á foreldrastöðu. Er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns? Í þinglegri meðferð sinni árin 2011 og 2012 svaraði Alþingi þessari spurningu neitandi. Samkvæmt hefðbundnum íslenskum sjónarmiðum í samningarétti rúmast samningar af þessu tagi ekki innan réttarverndar samninga, hvorki samkvæmt meginreglum laga né settum samningalögum. Um leið er ljóst að einhvers konar persónulegt samkomulag er forsenda ferlisins. Afstaða til gjörningsins verður að vera sameiginleg án þess þó að vera bindandi afsal á foreldrarétti.

Að lokum vil ég hér í fyrri hluta minnar munnlegu skýrslu varpa fram þeirri hugsun til Alþingis að áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir í þessum efnum þarf að svara mörgum spurningum en þó er þar ein sérstaklega brýn, spurningin um hvernig hin góðu tengsl barns og staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og væntanlegra foreldra verði best tryggð. Þetta er sennilega sú spurning sem Svíar hafa m.a. glímt við í allnokkurn tíma þar sem spurt er hvort rétt sé að þau byggi á þegar orðnum tengslum, svo sem frændsemi eða vináttu, en í þá átt vísar t.d. niðurstaða meiri hluta sænska siðfræðiráðsins um staðgöngumæðrun sem kunngerð var á síðasta ári.

Að lokum þessa fyrri hluta skýrslu minnar vænti ég þess að við munum eiga málefnalega og góða umræðu í dag sem skilar okkur góðu veganesti inn í þá vinnu sem nú stendur yfir og lýkur væntanlega með framlagningu frumvarps um þetta mál þegar fram líða stundir og vonandi innan tíðar.