144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

bygging sjúkrahótels.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður spyr hér um, forgangsröðina, þá verður að hafa það í huga að ákveðin lög gilda um verkefnið sem heitir Nýi Landspítalinn ohf. Þar inni eru allnokkrir verkþættir — fimm, ef ég man rétt, sjúkrahótelið er einn af þeim. Eftir þessum lögum vinn ég. Gert er ráð fyrir og hefur verið gert í öllum áætlunum að sjúkrahótelið sé í fyrsta áfanga þeirra byggingarframkvæmda sem liggja fyrir.

Þegar spurt er um það hverjir leggja þetta til þá þekki ég það ekki nákvæmlega að öðru leyti en því að það liggur fyrir í lögunum, í öllum gögnum, að þetta sé eitt af þeim verkefnum eða byggingarframkvæmdum sem sé í 1. áfanga.

Þegar forgangsröðuninni er velt upp gagnvart t.d. kaupum á einhverjum tækjum og öðru því um líku þá hef ég svarað því til og sérstaklega rætt um þennan svokallaða jáeindaskanna, PET-skanna. Ef við ætluðum að ráðast í það verk núna yrðum við að bjarga því til bráðabirgða. Sú framkvæmd kostar þegar allt er tekið á þriðja milljarð og á þá eftir að áætla fyrir rekstrarkostnaði sem er verulegur. Það er miklu skynsamlegra að horfa á heildarverkið þar sem gert er ráð fyrir þessari tækni og nýjung í meðferðarkjarnanum og horfa til þess. Við verðum að hafa það í huga hvort heldur við erum að ræða sjúkrahótel eða einstaka nýjungar í læknisfræði að þetta verkefni, sem endurbygging þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut er, mun vara allt til ársins 2021–2022. Það er því langur vegur eftir í því efni að við getum staðið frammi fyrir alþjóð og sagt: Hér erum við með fullbúið sjúkrahús eftir þeim áformum sem við ætlum að (Forseti hringir.) fylgja.