144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

bygging sjúkrahótels.

[10:58]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því og alveg örugglega þingheimur allur að þetta er vandasamt verkefni, sérstaklega þegar horft er til þess að fyrir liggur og er óhjákvæmilegt að uppbygging á þessum nýja spítala mun fara fram með einhvers konar bútasaumi. Það er auðvitað vandasamt verk, þess þá heldur þarf að vanda vel í upphafi verksins.

Mig langar hins vegar að hnykkja á spurningunni sem ég varpaði fram hér áðan og fékk ekki svar við, án þess að ég vilji nú taka mér það óþjála orð „þarfagreining“ í munn, en ég spurði hvort núverandi fyrirkomulag á rekstri sjúkrahótela annaði ekki eftirspurninni í dag, hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hefði einhverja hugmynd í grófum dráttum um það.