144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari umræðu snýst spurningin um hvar á að taka peningana til að byggja upp ferðamannastaðina. Þeir borga sem njóta.

Mig langar aðeins að velta upp einum þanka, ég er ekki að segja að það sé afstaða mín en það er alla vega einnar messu virði að velta því fyrir sér. Milljón ferðamenn koma til Íslands, þeir eru ígildi þess að íslenskur markaður hafi aukist um sem svarar 50 þúsund manna byggðarlagi. Þeir menn og konur sem hingað koma eyða miklum fjármunum og auka veltuna í fjölmörgum atvinnugreinum. Þeir hafa til dæmis skipt sköpum fyrir þróun mjólkuriðnaðarins núna á allra síðustu árum. Og ég velti fyrir mér: Er nauðsynlegt og er það fullkomlega eðlilegt að fara sérstaklega í það að rukka þá fyrir að koma til landsins og njóta náttúrunnar og um leið taka okkur hin sem búum hér og höfum gert frá alda öðli? Ég er ekki alveg viss um að þetta sé fullkomlega lógískur þankagangur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvernig vill hún nálgast þennan skort á fjármunum sem er til að geta byggt (Forseti hringir.) upp ferðamannastaðina?