145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að það gekk til hennar að nýju eftir 2. umr. 17. desember. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa komið á fund nefndarinnar auk fulltrúa frá Ríkisendurskoðun og Seðlabanka Íslands. Þessir aðilar hafa farið yfir áhrif áætlunar stjórnvalda um losun fjármagnshafta á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta er nú óðum að raungerast þar sem kröfuhafar hafa samþykkt frumvarp að nauðasamningum vegna slitabúa þriggja stærstu bankanna og yfirgnæfandi hluti tillagna meiri hlutans við 3. umr. tengist þeirri áætlun.

Á forsíðu nefndarálitsins er tafla þar sem farið er yfir áhrif og hvað raunverulega fellur undir stöðugleikaframlag. Það er til að mynda laust fé upp á 17,2 milljarða, auðseljanlegar eignir í krónum upp á 17 milljarða, umsýslueignir í krónum upp á 28,5 milljarða, umsýslueignir í erlendum gjaldmiðlum upp á 14,9 milljarða, skilyrtar fjársópseignir upp á tæpa 2 milljarða, 95% eignarhlutur í Íslandsbanka upp á 184,7 milljarða og skuldabréf Kaupþings með veði í Arion banka upp á 84 milljarða. Svo eru hér önnur áhrif stöðugleikaframlaga, 17 milljarðar í mínus vegna lækkunar bankaskatts vegna slitabúa en samtals koma inn fyrir 3. umr. stöðugleikaframlög sem fara á tekjuhlið ríkissjóðs upp á 338,9 milljarða, virðulegi forseti. Það leiðir af sér að í fyrsta sinn fara heildartekjur ríkisins yfir 1 þús. milljarða á rekstrargrunni, nákvæmlega 1.041 milljarð.

Á heildina litið fela tillögur meiri hlutans í sér að tekjur aukist um meira en 340 milljarða kr. og gjöld um rúma 4 milljarða á rekstrargrunni. Að meðtöldum stöðugleikaframlögum er áætlað að heildartekjur ríkissjóðs, eins og ég fór yfir áðan, nemi rúmlega 1.040 milljörðum og gjöldin verða rúmlega 695 milljarðar á næsta ári. Án stöðugleikaframlaga verða tekjurnar rúmir 700 milljarðar og gjöldin 693,6 milljarðar. Er þá áætlaður rekstrarafgangur þegar litið er til þess aðeins 6,7 milljarðar kr.

Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á nauðsyn þess að stöðugleikaframlögum verði að fullu varið til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og mun fylgja því sérstaklega eftir. Alls ekki má hvika frá þeirri áætlun og fyrirætlan og vísast í því sambandi til umfjöllunar í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umr. þar sem vakin var athygli á hækkun lífeyrisskuldbindinga og áhrifum af fjölgun aldraðra á útgjöld til heilbrigðismála. Veruleg lækkun skulda ríkissjóðs er forsenda þess að ríkisfjármálin geti orðið sjálfbær til lengri tíma.

Við gerum hér sérstaka tillögu um fjármagnstilfærslur á tekjuhlið fjárlaga vegna stöðugleikaframlaga sem nema samtals 348 milljörðum á næsta ári. Framlögin hafa einnig áhrif á nokkra aðra tekjuliði. Þar ber hæst 17 milljarða kr. tekjur af fyrirhuguðum bankaskatti sem fellur niður þar sem nú er gert ráð fyrir að öll stóru þrotabú bankanna velji þá leið að greiða stöðugleikaframlag í stað skattlagningar. Önnur áhrif á tekjuhlið eru hækkun arðgreiðslna þar sem ríkissjóður eignast allt hlutafé í Íslandsbanka hf. og hækkun vaxtatekna þar sem ríkissjóður eignast einnig skuldabréf í eigu slitabús Kaupþings með veði í Arion banka. Afleiðing þessa er um 1,5 milljarða kr. hækkun tekna af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður þarf að greiða en það hefur engin áhrif á afkomuna í heild þar sem jafn há fjárhæð kemur til gjalda hjá ríkissjóði og núllast því út.

Svona meðan ég man er rétt að geta þess að bankarnir sem ríkið fær nú við þessa aðgerð verða hýstir í Bankasýslu ríkisins. Aðrar eigur sem ríkið fær til sín með greiðslu þessa stöðugleikaframlags renna inn í eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands. Til stóð að setja virkt 6. gr. ákvæði inn fyrir 3. umr. fjárlaga en frá því var fallið vegna þess að bent hefur verið á að lagagrunnurinn varðandi eignarhaldsfélag Seðlabankans er ekki alveg nógu sterkur og fjármálaráðherra hefur nú þegar lagt fram frumvarp í þinginu sem styrkir löggjöfina í kringum þetta eignasafn. Samkomulag hefur orðið á milli flokkanna í þinginu um að hraða þessu máli og að það verði helst orðið að lögum í byrjun febrúar, a.m.k. í tæka tíð, skulum við segja, því að það er ekki alveg komið að því að ríkið taki á móti þessum eignum. Hins vegar er vilji allra að svo sé búið um hnútana að utanumhaldið um þær eigur sem ríkið fær sé byggt á sterkum lagalegum grunni.

Á gjaldahlið er ekki gert ráð fyrir öðrum áhrifum af stöðugleikaframlögum en áðurnefndum fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir. Í frumvarpinu sjálfu var búið að reikna með lækkun á vaxtagjöldum vegna uppgreiðslu á skuldabréfi ríkissjóðs til endurfjármögnunar á Seðlabanka Íslands. Hins vegar er gerð tillaga um fjórar aðrar breytingar á gjaldahlið. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 1.096 millj. kr. hækkun á fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en breytingin er tvíþætt. Við gerum þessa tillögu til að uppfylla samninginn við sveitarfélögin um málefni fatlaðs fólks því að það hefur verið ágreiningur milli sveitarfélaganna og ríkisins eftir yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna um hversu mikið ríkið ætti að inna af hendi inn í þann málaflokk. Það var mjög ánægjulegt að þetta samkomulag náðist rétt fyrir jól. Nú er búið að núllstilla það atriði með þessari breytingartillögu.

Við gerum í öðru lagi tillögu um að 1 þús. milljónir fari í tímabundið framlag til Landspítalans til að fjölga úrræðum fyrir sjúklinga, sérstaklega þá sem þurfa ekki nauðsynlega að dvelja á bráðalegudeildum Landspítalans. Við gerum í þriðja lagi tillögu um 250 millj. kr. aukið framlag til viðhalds á húsnæði fyrir Landspítalann. Samtals fara í heilbrigðismálin við 3. umr. 1.250 milljónir og er það afar ánægjulegt því að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur ætíð haft heilbrigðismálin í forgangi.

Í fjórða lagi er tillaga um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins til eflingar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni og innlendri dagskrárgerð sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.

Hér eru þrjár breytingartillögur í viðbót sem tengjast allar stöðugleikaframlögunum. Lögð er til ný framsetning á 1. og 2. gr. fjárlaga þannig að ýmsir liðir verði sýndir bæði með og án stöðugleikaframlaga. Það er til þess að þeir sem lesa og eru áhugamenn um fjármál ríkisins sjái betur við hvað er átt. Þarna inn eru settar nýjar skilgreiningar sem eru mjög til bóta til að sjá hvernig stöðugleikaframlögin komi inn í þingskjöl og færist í ríkisreikning síðar.

Við leggjum einnig til þá breytingu á 5. gr. að við bætist nýr töluliður þar sem fjármála- og efnahagsráðherra verði heimilað að taka að láni allt að 200 milljarða kr. eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í innlendri eða erlendri mynt til eflingar gjaldeyrisforða. Þetta þótti nauðsynlegt. Þessi tala var hærri þegar tillagan kom til fjárlaganefndar. Það varð samkomulag um að fara með hana í 200 milljarða kr. og ég minni á að þetta er einungis heimild til að grípa til ef þarf, öryggisheimild. Sé hún ekki notuð eða ekki notuð að fullu kemur hún inn í fjáraukalög fyrir 2016 sem mínustala.

Í yfirlitinu um stöðugleikaframlögin í töflunni á bls. 1 í nefndarálitinu sést að þótt háar fjárhæðir felist í framlögunum verður stærstum hluta þeirra ekki komið í verð strax. Laust fé á næsta ári nemur aðeins rúmlega 41 milljarði sem verður til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir á næsta ári. Því er ekki gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki á næsta ári fyrir utan að miðað er við að skuldabréf vegna endurfjármögnunar Seðlabankans verði greitt upp á árinu. Eftirstöðvar þess í árslok 2015 eru áætlaðar um 90 milljarðar kr.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að útfærslu á áætlun um að koma umsýslueignum í verð þannig að eignarhlutir verði seldir á næstu árum og tryggt verði að allar sölutekjur renni til þess að lækka skuldir ríkisins. Áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta tekur til mun fleiri þátta en gerðar eru tillögur um hér í tengslum við fjárlög fyrir árið 2016. Til viðbótar við stöðugleikaframlögin er talið að auknar endurheimtur eignasafns Seðlabanka Íslands vegna uppgjöra slitabúanna geti orðið um 81 milljarður. Þá geta 30 milljarða kr. skattgreiðslur slitabúanna dregið úr neikvæðum greiðslujafnaðaráhrifum. Heildargreiðslur til opinberra aðila eru í heild áætlaðar um 495 milljarðar kr. Til viðbótar eru fleiri mótvægisaðgerðir fyrirhugaðar og er áætlað að þær nemi í heild um 660 milljörðum kr. Hér er um stórar og háar upphæðir að tefla en heildaráhrif þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar eru þá um 660 milljarðar.

Meiri hlutinn vekur athygli á því að þar sem dregin var til baka við 2. umr. tillaga um 13 millj. kr. lækkun fjárveitinga til umboðsmanns Alþingis vegna lægri húsnæðiskostnaðar eykst fjárhagsrammi embættisins að raungildi frá því í fyrra. Með þessu skapast enn meira svigrúm fyrir frumkvæðisrannsóknir af hálfu embættisins. Við leggjum áherslu á að við ætlum að falla frá því að flytja þessa tillögu og hún kemur hér inn og við leggjum til að hún verði samþykkt og að á komandi ári þurfi að ganga formlega frá fjárhagslegum samskiptum milli Alþingis og embættis umboðsmanns Alþingis. Þarna var um að ræða svolítið skrýtnar færslur þar sem Alþingi á húsnæðið sem umboðsmaður Alþingis er í nú. Embættið var látið greiða stofnkostnað en það er komið samkomulag um að farið verði yfir þessi mál og þeim komið á réttan kjöl.

Á bls. 4, 5, 6 og 7 eru skýringar um bæði tekjuhliðina og gjaldahliðina. Þetta er kaflaskipt. Hér er sérstök umfjöllun um Ríkisútvarpið, hér er sérstök umfjöllun um samkomulag um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, hér er einnig umfjöllun og sérstakur kafli um Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna vegna endurmatsins sem ég fór yfir í byrjun, hér er sérstakur kafli um viðhaldið sem á að fara í á Landspítalanum og sérstakur kafli um fráflæðisvandamál Landspítalans.

En ég ætla einungis að gera Ríkisútvarpinu skil í þessari ræðu. Aðrir nefndarmenn munu tala um aðra kafla svo það sé sagt. Gerð er tillaga um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins ohf. til eflingar innlendri dagskrárgerð. Ekki er lögð til breyting á útvarpsgjaldinu heldur er hér um að ræða framlag úr ríkissjóði. Framlaginu skal verja til að auka kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að keypt verði efni frá þeim fyrir um 450 millj. kr. og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð verði 625 millj. kr. á næsta ári. Í áliti meiri hlutans við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 kom fram sú skoðun að fjárlaganefnd hafi ekki fengið viðunandi svör um rekstur félagsins og að ráðherranefnd um ríkisfjármál hefði ekki samþykkt rekstraráætlanir en það var skilyrði þess að RÚV fengi 181 millj. kr. fjárveitingu og að hún yrði greidd til félagsins. Meiri hlutinn væntir þess að þetta breytist á komandi ári og bendir á að með útleigu húsnæðisins og öðrum hagræðingaraðgerðum hefur Ríkisútvarpið brugðist við rekstrarvanda. Leigutekjur geta numið um 60 millj. kr. á ári auk þess sem sala á byggingarrétti gæti lækkað skuldir um 1.500–2.000 milljónir. Meiri hlutinn telur það mjög jákvæða þróun og hvetur stjórnvöld til að skoða dreifikerfi Ríkisútvarpsins í samhengi við fjarskiptakerfin til að ná fram sem mestri hagkvæmni.

Meiri hlutinn bendir á að sérstök tímabundin fjárveiting til innlendrar dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skekki samkeppnisstöðu innlendra ljósvakamiðla enn frekar. Því er nauðsynlegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu til framtíðar um eflingu innlendrar dagskrárgerðar almennt þar sem allir fjölmiðlar sitji við sama borð. Þar hlýtur að verða skoðað sérstaklega hvort skynsamlegt sé að koma á fót sjálfstæðum dagskrárgerðarsjóði til að efla innlenda dagskrárgerð sem yrði að stærstum hluta fjármagnaður með útvarpsgjaldi. Meiri hlutinn telur óumdeilt að frá menningarlegu sjónarmiði sé mikilvægt að efla innlenda dagskrárgerð, jafnt í útvarpi sem sjónvarpi, og að löggjafinn geti tryggt það án þess að afleiðingin verði aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð eða hækkun gjalda sem eru lögð á einstaklinga og lögaðila. Jafnframt er nauðsynlegt að stuðla að jafnræði á fjölmiðlamarkaði og ýta undir valddreifingu og fjölbreytni í dagskrárgerð.

Meiri hlutinn beinir því jafnframt til mennta- og menningarmálaráðherra að í nýjum þjónustusamningi ráðuneytisins og Ríkisútvarpsins verði ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum.

Ég minni jafnframt á það að við 2. umr. var samþykkt tillaga meiri hlutans um að veita 60 milljónir til Ríkisútvarpsins þar sem fleiri gjaldendur reyndust vera í áætlunum á tekjuhlið fjárlaga. Nú hefur verið bætt vel yfir 200 milljónum í Ríkisútvarpið og það er von allra hér að sú vinna sem hefur verið í gangi og er fram undan hjá félaginu komi til með að ganga vel og skila okkur öllum farsælli niðurstöðu.

Virðulegi forseti. Ég geri það að tillögu minni að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram verði samþykktar í atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. og þakka að lokum fjárlaganefnd aftur fyrir góð störf sem og starfsfólki nefndarinnar fyrir mikla þolinmæði.