145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að það hafi verið nokkrir greiðendur þarna inni á milli, svo ég noti orð hv. þingmanns, sem greiddu auðlegðarskattinn sem hefðu getað gert það. Ég vil bara vekja athygli á að það var eldra fólk sem greiddi þennan skatt. Þetta fólk þurfti í mörgum tilfellum að selja eignir sínar til að geta greitt skattinn. Ég vek enn fremur athygli á því, af því að ég held að þetta skipti alveg grundvallarmáli í ljósi þess hvað hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru að segja núna sem stemmir svo sem allt að sama ósi, að hv. þingmaður sagði um auðlegðarskattinn:

„Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Núna er þetta hins vegar orðið eitthvað miklu loðnara. Það að hann sé hins vegar tímabundinn er meðal annars tekið fram í dómsorði af því að menn fóru í mál út af þessum skatti. Menn segja kannski núna að það hafi þurft að sníða af honum agnúa en menn gerðu það ekkert, menn höfðu hann bara svona eins og hann var, en sögðu: Heyrðu, hafðu ekki áhyggjur af þessu, við ætlum ekki að endurnýja hann. Þið getið treyst okkur, við ætlum ekki að endurnýja hann. Þið gamla fólk sem eruð í rosalegum vandræðum með að greiða þennan skatt, treystið okkur, við ætlum ekki að endurnýja hann.

Svo kemur í ljós að það stóð aldrei til að standa við það. Það kemur algjörlega skýrt fram hjá hv. þingmanni hér og hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að það sem þau sögðu, bæði þegar þau lögðu fram skattinn og líka fyrir kosningar, stóð aldrei til að standa við. Ég vona að kjósendur muni það.

Ég spurði líka um forgangsröðun í heilbrigðismálum af því að nú tala þau svo mikið um þau. Hver sem er getur skoðað ríkisreikning og skoðað svar fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar og þá sjá menn hvaða hug (Forseti hringir.) Samfylkingin og Vinstri grænir bera í raun til heilbrigðismálanna. (Gripið fram í: Forsætisráðherra …)