145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði. Það sem mundi felast í því, sem ég held að sé nýbreytni hér, að við mundum taka þjónustusamninginn til umræðu er auðvitað að þá geta þingmenn komið skoðunum sínum á framfæri, ef við t.d. gerðum þetta í formi umræðu um skýrslu. Áfram er sú kvöð á ráðherranum að gera samninginn. Hann er á ábyrgð ráðherrans. Ég er ekki að breyta eða leggja til lagabreytingu á því.

En ég tel rétt að þingið hafi tækifæri til að tjá sig um slíkan samning. Ég held að það færi ágætlega á því að sú umræða færi fram áður en skrifað væri undir slíkan samning, þannig að ráðherrann gæti eftir atvikum tekið þau sjónarmið sem þar koma fram, ef hentar, inn í slíkan samning.

Að sjálfsögðu þyrfti hann að vera innan þess ramma sem Alþingi hefur ákveðið með lögum hvað varðar fjármagn til þessarar stofnunar. Við getum rætt áfram hvað það þýðir til dæmis ef þingið telur að beita þurfi einhverri forgangsröðun sem kallar á aukin útgjöld. Ég veit ekki hvort það þýðir þá eitthvað í fjárauka eða bara fyrir næstu fjárlög. Það er seinni tíma mál.

Virðulegi forseti. Ég mun koma að öðrum málum á eftir en vil benda á að hvað varðar þann texta sem er í greinargerðinni um áhersluna á efniskaup frá sjálfstætt starfandi aðilum þá er hér á ferðinni það að ég hef sagt opinberlega að ég hyggist setja það inn í þjónustusamninginn að þessum fjármunum verði varið þannig. Það er ekki neitt inngrip inn í rekstur Ríkisútvarpsins. Það er eðlilegur hluti af þjónustusamningnum og nú þegar er slíkt ákvæði til staðar í samningnum þar sem er prósentutala um það hversu hár hluti af ríkisframlaginu eigi að fara til slíkra hluta. Ég held að það megi ekki lesa um of í þennan greinargerðartexta (Forseti hringir.) hvað þetta varðar. Þetta er alveg í flútti við það sem áður hefur verið gert.