145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hamingjuóskirnar. Það heyrðu allir á ræðu hv. þingmanns að hann er með samviskubit. Hann er með mikið samviskubit. Ég skil það vel. Ég er búinn að fara mjög mjúklega að stjórnarandstæðingum, sem voru í síðustu ríkisstjórn, einfaldlega vegna þess að ég hef sagt það og veit að þeir eru margir illa haldnir af samviskubiti, enda var verkefnið erfitt sem þeir þurftu leysa. Hins vegar eru nokkrir, sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem verða að tala skýrt. Nú verður hann að gangast við því sem hann gerði. Af hverju bætti hv. þingmaður í utanríkismálin meðan það var bæði hlutfallslega og í fjölda tekið miklu meira niður en sem nam meðaltalinu af sparnaðinum í heilbrigðismálum? Ef hv. þingmanni þykir svo vænt um eldri borgara, um heilbrigðismálin, af hverju bætti hann í utanríkismálin? Af hverju beitti hann sér fyrir því að bætt yrði í umhverfismálin? Bætt í eftirlitsstofnanirnar? Bætt í ýmis verkefni utanríkisráðuneytisins sem hækkuðu um 287% og þar voru fullorðinstölur? Bara ESB-umsóknin kostaði heilan milljarð, 1.000 milljónir. Á sama tíma reynir hv. þingmaður að telja okkur trú um að þeir hafi verið að skera niður þar sem hægt var að skera niður. Var ekki hægt að skera niður í þessu? Hvaða sjúklingur naut góðs af því að hv. þingmaður dældi í utanríkismálin? Setti 1.000 milljónir (Forseti hringir.) í ESB-umsókn? Hvaða sjúklingur eða lífeyrisþegi naut góðs af því?