146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið við andsvari. Vitaskuld get ég tekið undir að það sé skárra að fólk neyti nikótíns í gegnum rafsígarettur en tóbak, þessa venjulegu leið. En eins og hv. þingmaður kom inn á er þetta ný tækni og rannsóknir takmarkaðar að öðru leyti en því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnun mælist til þess að settar séu reglur og reynt að sporna við nýgengi nikótínneyslu í gegnum rafsígarettur af lýðheilsulegum ástæðum, vegna þess að nikótín er þekkt lyf sem veldur fíkn og ýtir undir reglulega neyslu meðan nikótín er tekið inn, m.a. í gegnum tóbak og ekki bara reyktóbak heldur líka, sem er stórkostlegt lýðheilsuvandamál, sérstaklega á Norðurlöndunum og í öðrum nágrannalöndum okkar, í gegnum munn- og neftóbak. Ég held að það sé lýðheilsulegt grundvallarsjónarmið í því að leggja þetta frumvarp fram að reyna að sporna við nýgengi nikótínfíknar, sérstaklega hjá ungmennum. Síðan vil ég taka fram að frumvarpið er í raun og veru um að leyfa notkun á nikótínvökva í rafsígarettur sem er ekki heimil í dag. Verið er að setja reglur um umhverfi sem er hóflegra en það er um neyslu tóbaks sem ætti að auðvelda skaðaminnkandi notkun efnisins fyrir þá sem vilja nota það til að hætta að nota tóbak. En andsvarið var í raun og veru fyrst og fremst þetta, að spyrja hv. þingmann hvort hún taki ekki undir mikilvægi þess að hafa reglur (Forseti hringir.) og öryggisreglur utan um notkun á nikótíni í hvaða formi sem það er og hvort hún hafi ekki sömuleiðis áhyggjur af nýgengi.