146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:13]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Jú, ég get alveg haft áhyggjur af því. En ég skal líka alveg vera heiðarleg með að ég held að æska landsins sé smám saman að stíga fleiri skref í rétta átt. Ég tel að þetta sé þrátt fyrir allt eitt af þeim skrefum þar sem ekki er ýkja langt síðan við sáum allt aðra stemningu í kringum ungmennin okkar, sem við sjáum sem betur fer ekki í dag. Þar koma margir að og eiga hrós skilið fyrir það. Það er hins vegar bara eitthvað við umræðuna sem er svolítið hæpið að fullyrða, um rannsóknirnar og fullyrðingar um hvað valdi hverju. Ég held að það sé rétt að minna á athugasemd hv. þm. Pawels Bartoszeks þar sem hann gerði athugasemd um að frumvarpið virtist einungis taka til nikótínvökva. Það er líka til vökvi sem er ekki með nikótíni. Erum við þá að ræða að það mætti vera með þær rafrettur, halda þeim að ungmennum? Væri það hugsanlega eitthvað sem við gætum rétt þeim á móti, ef svo má segja? Ég er fyrst og fremst að tala fyrir því að við mætum raunveruleikanum eins kreddulaust og fordómalaust og mögulegt er til að við förum ekki á mis við það tækifæri að geta mögulega til framtíðar skipt út sígarettum í samfélaginu. Það þarf ekki að rökstyðja ábatann fyrir bæði samfélagið og hvern einasta einstakling við það. Ég tek undir, eins og ég byrjaði ræðu mína á í upphafi, að allur rammi og merkingar og öryggisrammar séu sjálfsagðir. Ég fagna því. En að öðru leyti held ég að við getum gert betur.