146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[20:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér fjöllum við um frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Ég lýsi ánægju minni með þetta frumvarp. Ég skildi 3. gr. ekki á sama hátt og hv. þm. Halldóra Mogensen. Hins vegar veit ég að hún skildi það þannig að hér væri ekki verið að refsa neytandanum heldur þeim sem flytja inn og selja. Ég vona það, því að hún situr í velferðarnefnd, að nefndin gangi úr skugga um að það sé alveg klárt að við skiljum þetta með réttum hætti.

Mér finnst mikilvægt, tímabært, að þetta frumvarp komi fram. Þetta er löngu orðið mikið og stórt vandamál, sérstaklega innan ákveðinna íþróttagreina. Við heyrum því miður of oft af því þegar fólk fellur á lyfjaprófum. Það á ekki bara við um karla, það á líka við um konur. Það hefur færst í aukana. Ég held að taka þurfi á þessu. Mér finnst líka gott að samkvæmt 4. gr. getur ráðherra ákveðið með reglugerð að bæta við þennan flokk ef það eru einhver efni eða lyf sem ekki eru tilgreind. Ég held að það sé af hinu góða.

Þegar maður þekkir afleiðingar þess að fólk fer illa með og misnotar stera eða önnur slík efni er maður meðvitaður um hversu nauðsynlegt er að setja einhvers konar löggjöf, reyna að hamla innflutningi og ólöglegri sölu, ná utan um þennan vanda með einhverjum hætti. Hvort lög ein og sér ná utan um það veit ég ekki en það er að minnsta kosti tilraun til að þeir sem við það starfa að reyna að leggja hald á þessar vörur hafi einhvern skýran lagaramma á bak við sig.

Hér var rætt um afleiðingarnar, þ.e. sektir eða fangelsisvist, hvort slíkt ætti rétt á sér og skilaði árangri eða ekki eða hvort hægt væri að færa okkur meira í átt til betrunar. Ég er alla jafna á því að betrun sé það sem eigi að vera í refsivörslukerfi okkar. Ég lít þó ekki þannig á að fangelsisvist sé í öllum tilvikum óskynsamleg. Ég veit ekki hvort hún er það í þessu tilviki eða ekki. Þetta er alltaf spurning um hvað verður til þess að koma í veg fyrir að fólk brjóti lögin, hvað þarf að gerast til að maður ákveði að taka ekki sénsinn. Ég veit ekki hvort þetta er rétt nálgun eða ekki en vil nú ekki segja að þetta sé eins og frá miðöldum. Ég tek ekki undir þá skoðun sem hér var flíkað. En ég er alveg sammála að við eigum að beita betrunarúrræðum miklu meira.

Þó að steranotkun hafi verið leyfð nítján hundruð þrjátíu og eitthvað, eða hvenær byrjað var að nota þá hér á landi, þá sjáum við afleiðingar af langvarandi steranotkun á fullorðnu fólki akkúrat núna. Maður þekkir hin geðrænu áhrif, manísku einkennin, meðan á neyslunni stendur, þunglyndið sem birtist í fráhvörfunum, fyrir utan margt annað sem slík neysla hefur í för með sér eins og önnur ofneysla.

Ég ætla ekki að tala lengi um þetta mál. Ég er ánægð með að þetta frumvarp sé komið fram og vona svo sannarlega að það nái utan um það sem því er ætlað, að gera takmörkun á innflutningi á ólöglegum efnum auðveldari, að auðveldara verði að gera þetta upptækt og það verði til þess að færri þora að taka sénsinn.