146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

435. mál
[21:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Markmið frumvarpsins er að þátttakendum á vinnumarkaði verði ekki mismunað, hvorki beint né óbeint, á grundvelli fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar eða kynvitundar. Er þar með stefnt að því að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð á vinnumarkaði.

Í mínum huga er það ekki síður mikilvægt í því skyni að stuðla að virkni sem flestra á vinnumarkaði en almenn þátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt.

Gerð þessa frumvarps hefur átt sér þó nokkurn aðdraganda en það byggist á efni Evróputilskipana frá árinu 2000. Þessar tilskipanir eiga ekki formlega undir samninginn um evrópska efnahagssvæðið en í upphafi árs árið 2003 samþykkti ríkisstjórn Íslands að íslensk löggjöf yrði aðlöguð að efni tilskipananna til að tryggja einsleitni á innri markaði innan svæðisins. Þess ber jafnframt að geta að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og sérfræðinganefnd félagsmálasáttmála Evrópu hafa gert ríka kröfu til íslenskra stjórnvalda um að löggjöf um bann við mismunun á grundvelli þeirra þátta sem framangreindar tilskipanir taka til verði sett hér á landi.

Frumvarpið var samið í nánu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins en jafnframt var óskað eftir umsögnum frá fjölmörgum aðilum sem láta jafnrétti sig varða. Þá fór frumvarpið í opið umsagnarferli á vef ráðuneytisins í febrúar 2014 þar sem öllum sem vildu var boðið að senda inn athugasemdir um það. Farið var yfir allar athugasemdir sem bárust og tillit tekið til þeirra eftir því sem tilefni var til.

Frumvarp þetta tekur ekki til mismunandi meðferðar einstaklinga á vinnumarkaði á grundvelli ríkisfangs eða ríkisfangsleysis og hefur því hvorki áhrif á gildissvið laga um útlendinga né laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þá er vert að taka fram að áfram er heimilt að kveða á um tiltekin aldursskilyrði í tengslum við lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum og frumvarpið gildir ekki um opinber félagsleg kerfi, svo sem almannatryggingakerfið, félagsþjónustu sveitarfélaga, atvinnuleysistryggingakerfið og fæðingarorlofskerfið.

Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði um orðskýringar þar sem bæði eru skýrð hugtök til samræmis við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, t.d. bein og óbein mismunun, áreitni og launahugtakið. Enn fremur eru lagðar til skýringar á orðunum lífsskoðun, fötlun, skert starfsgeta, aldur, kynhneigð og kynvitund.

Mér er fullkunnugt um að tvær síðastnefndu ástæðurnar hafa verið í mikilli þróun á síðustu misserum en samkomulag náðist um þær orðskýringar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Ég eftirlæt því þingheimi að ræða efni þeirra nánar komi krafa þar um.

Umræddar ástæður fyrir mismunun eru að vissu leyti ólíkar. Þannig má almennt ætla að trú, lífsskoðun, kynhneigð og kynvitund séu þættir sem ekki sé endilega auðvelt að greina. Það sem ætla má að sé sameiginlegt með þeim þáttum er að þeir hafi almennt ekkert með starfshæfni einstaklinga að gera. Ákveðin hætta þykir á því að þeir þættir kunni að leiða til þess að einstaklingur fái ekki notið sín á eðlilegan hátt í starfi vegna neikvæðra staðalímynda sem rekja má til þeirra án tillits til einstaklingsbundinnar starfshæfni viðkomandi. Aldur, fötlun og skert starfsgeta eru hins vegar þættir sem almennt má ætla að geti haft áhrif á færni einstaklinga til að sinna ákveðnum störfum en öðrum ekki. Engu að síður er hætta á að sömu einstaklingar fái ekki sömu tækifæri til jafns við aðra til að gegna störfum sem eru við þeirra hæfi eingöngu vegna neikvæðra staðalímynda tengdum aldri, fötlun eða skertri starfsgetu fremur en einstaklingsbundinnar starfshæfni hlutaðeigandi. Er frumvarpi þessu ætlað að koma í veg fyrir slíka mismunun.

Ég ætla ekki að fjalla nánar um þær ástæður sem frumvarpið fjallar um en þeim eru gerð ágæt skil í greinargerð með því. Ég vil þó benda á að gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins er varða mismunandi meðferð á grundvelli aldurs á innlendum vinnumarkaði taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2019. Ástæðan er sú að aðilar vinnumarkaðarins þurfa ráðrúm til að skoða aldurstengdar reglur í kjarasamningum milli aðila, þar á meðal aldurstengdar starfslokareglur, og gera breytingar til samræmis við ákvæði frumvarpsins ef þörf er á.

Sérstakt ákvæði er um bann við mismunun í starfi og við ráðningu en það gildir einnig um vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Enn fremur er sérstakt ákvæði um bann við mismunun í tengslum við laun og önnur starfskjör en þessi ákvæði eiga sér fyrirmynd í efnislega sambærilegum ákvæðum í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þá er sérstakt ákvæði þar sem atvinnurekendur skulu gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.

Frumvarpið gerir ráð fyrir ákveðnum frávikum frá meginreglunni um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitunds vegna starfstengdra eiginleika eða hlutlægra þátta sem kunna að réttlæta mismunandi meðferð að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þar á meðal eru þau skilyrði að slíkir starfstengdir eiginleikar hafi lögmætan tilgang og gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Dæmi um slík tilvik eru hæfisskilyrði um líkamshreysti til að gegna ýmsum störfum, svo sem lögreglustörfum eða slökkvistörfum.

Annað mikilvægt atriði sem verður að hafa í huga er að orsakasamband verður að vera á milli þeirrar mismununar sem einstaklingur telur sig hafa orðið fyrir og tilgreinds þáttar. Þannig verður að ætla að atvinnurekendur geti í krafti stjórnunarréttar síns áfram gripið til margs konar aðgerða sem hafa áhrif á starfsmenn án þess að þar sé um mismunun að ræða samkvæmt frumvarpinu. Í því sambandi ber jafnframt að nefna að flestir af þeim þáttum sem frumvarpið nær til geta verið þess eðlis að ekki sé alltaf unnt að ætla að atvinnurekanda sé kunnugt um þá að því er varðar starfsmenn hans. Verður því að ætla að í þeim tilfellum verði ekki talið að um mismunun hafi verið að ræða í skilningi frumvarpsins.

Í frumvarpinu er lögð til sama sönnunarregla og er að finna í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þannig gildir að verði leiddar líkur að því að mismunun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem frumvarpið kveður á um.

Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Því er ætlað að gilda um opinberar stofnanir jafnt sem fyrirtæki á almennum vinnumarkaði þannig að við töku ákvarðana um réttindi og skyldur á vinnumarkaði beri ávallt að virða meginregluna um jafna meðferð þó að mismunandi meðferð sé heimil í vissum undantekningartilvikum. Er þannig með frumvarpinu lagt til að veitt verði í fyrsta skipti hér á landi aukin réttarvernd þeim einstaklingum sem telja sér mismunað á vinnumarkaði á grundvelli annarra ástæðna en kyns.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar.