148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Við ræðum tillögu sem efni sínu samkvæmt felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að skipa starfshóp, skipuðum sérfræðingum, til að meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar.

Það er auðvitað ekkert að því og sjálfsagt mál að þessir hlutir séu kannaðir og skilað skýrslu og ekkert nema gott um það að segja. Eins og ég gat um í andsvari þá hafði ég tækifæri til að taka þátt í meðferð málsins á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar og er að sjálfsögðu meðmæltur því að þessi tillaga verði samþykkt. Það er ekki þar fyrir að menn verða auðvitað að átta sig á því að hér er annað og stærra mál undir eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson gat reyndar um rétt áðan. Það er spurningin um framhaldslíf verðtryggingarinnar á íslenskum fjármálamarkaði. Mér þykir ekki gott að aðskilja þetta með öllu þannig að ég ætla að leyfa mér að fjalla eilítið um það efni og minna á það að enda þótt þessi tillaga sé borin fram af góðum huga sem ég dreg ekki í efa, þá lýtur hún ekki að neinu leyti að ákvörðunum um framtíðarskipan okkar fjármálakerfis.

Ég vil leggja á það þunga áherslu, herra forseti, að við megum ekki festast í viðjum vanahugsunar en það er eins og það beri eilítið á því í máli sumra þegar um þetta mál er fjallað. Það er eins og menn geti ekki séð fyrir sér veröldina öðruvísi en að hér sé helst allt verðtryggt sem iðar og lífsanda dregur. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að hvetja hv. þingheim til þess að hugleiða þótt ekki væri nema í örstutta stund hvernig á því stendur að til að mynda í okkar heimshluta, að ekki sé talað bara um í okkar nágrannalöndum, ef við tökum bara Norðurlöndin sem við eigum mikil samskipti við, hefur engin önnur þjóð tekið upp þann hátt sem gætir hér í svo miklum mæli sem raun ber vitni að venjulegt fólk, heimili, fjölskyldur gangast undir þá kvöð sem verðtrygging á íbúðalánum felur í sér. Þetta fyrirkomulag þekkist ekki í okkar heimshluta.

Menn mættu hugleiða það þótt ekki væri nema í örstutta stund hvernig á því stendur. Er það þannig að íslenskt efnahagslíf sé einhvern veginn algerlega á skjön við allt sem menn þekkja í okkar heimshluta þegar kemur að efnahagsmálum og fjármálum? Er það ekki svo, herra forseti, að það gætir flóðs og fjöru í efnahagsmálum annarra landa? Hafa ekki Norðmenn til að mynda þurft að glíma við afleiðingar af stórfelldu verðfalli á olíuvörum svo mikilvæg sem olíuframleiðsla er fyrir þá? Hafa ekki Norðmenn þurft að glíma við stórfellt fall á gengi sinnar norsku krónu af þessum ástæðum? Dugir það, herra forseti, í þessu máli að bera það alltaf fyrir sig að hér séu einhver sérstök efnahagslögmál og sérstakar aðstæður sem gera það að verkum að við þurfum að búa við alveg sérstakt kerfi sem er óþekkt í okkar heimshluta? Ég hef þennan fyrirvara, í okkar heimshluta, vegna þess að Seðlabankinn, í einhverri skýrslu þegar hann var eina ferðina enn að gerast málsvari og verjandi þessa kerfis, þóttist hafa fundið eitthvert dæmi um það að þetta tíðkaðist í Úrúgvæ og einhverjum löndum í þeim heimshluta. Ég geri ráð fyrir því að það sé fyrir hendi alveg yfirburða sérfræðiþekking í Seðlabankanum á innsta kjarnanum í efnahagsmálum í þessum löndum.

Þetta leyfir Seðlabankinn sér að gera í þessari þjónustu sinni, leyfi ég mér að segja, við fjármálaöflin. Hafandi sagt það er auðvitað rétt að minna á það að fjármálastofnanir almennt, ef við nefnum t.d. bankana sérstaklega, hafa af því mikla hagsmuni að viðhalda þessari verðtryggingu enda streymir til þeirra fé og eignir í krafti hennar. Annars vegar vegna þess að þeir eiga mun meira af verðtryggðum eignum en þeir skulda í verðtryggðum skuldbindingum þannig að hver einasta hækkun á vísitölu færir þeim aukið fé, og síðan er það hitt að þeir hafa af þessu þá hagsmuni sem í þessu felst að þeir vilja ekki með nokkru móti sleppa þessu fyrirkomulagi. Þá vantar ekki upp á það að Seðlabankinn liðsinni þeim í því efni, jafnvel þótt hann þurfi að seilast svo langt, herra forseti, að bera fyrir sig Úrúgvæ í þessu sambandi. Það eykur nú ekki virðingu á þeirri ágætu stofnun.

Þá vil ég leyfa mér aðeins að nefna það, af því að ég var að tala um vanahugsun, að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem jafnan lætur nú til sín taka í umræðum um þessi mál; það er eins og vanahugsunin hafi náð svolítið föstum tökum á hv. þingmanni. Ég verð að leyfa mér að segja það en það er áreitnislaust og ekki ætlað til að móðga einn eða neinn. Það er ekki nóg fyrir hv. þingmann að bera það fyrir sig að hugtök hafi enga merkingu eins og þegar hann segir að verðtrygging sé eitt form af vöxtum ef ég tók rétt eftir. Það getur ekki skilað okkur neitt í umræðu um stórfellt hagsmunamál íslenskrar þjóðar að rugla saman hugtökum og láta eins og það skipti ekki máli að fara rétt og nákvæmlega með hugtök og greina þau.

Herra forseti. Skavankarnir á verðtryggingunni eru fleiri en svo að hægt sé að telja þá alla í stuttri ræðu. Það er hins vegar svo þegar þessi mál ber á góma, eins og ég gat hérna um í andsvari áðan, að þá er eins og það fækki mjög skyndilega í þingsal. Heilu flokkarnir láta ekki sjá sig en ég fagna því að hér er þó einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og meira að segja Vinstri grænir eiga hérna fulltrúa, það gerist nú ekki alltaf þegar þessi mál eru á dagskrá. Samfylkingin er náttúrlega fjarstödd enda telur hún að það verði að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru áður en menn geta látið sig dreyma um að losna við verðtrygginguna. Hv. þm. fulltrúi Viðreisnar sem hér er í salnum getur leiðrétt mig ef stefna Viðreisnar er einhver önnur en nokkurn veginn sú sem ég var að lýsa hér varðandi Samfylkinguna.

Það er annað sem einkennir umræðu um þessi mál. Það er alveg sama hversu oft er farið yfir þá alvarlegu ágalla sem eru á þessu kerfi og snúa að venjulegu fólki, lífshagsmunum venjulegs fólks, heimilanna í landinu, hagsmunum atvinnufyrirtækja landsmanna og þá er ég að tala um hin litlu og meðalstóru fyrirtæki, þessum ágöllum lýst og þeir greindir er alltaf svarað með sama hættinum. Það er alltaf svarað, herra forseti, með þögninni einni saman. Nema þegar menn láta henda sig einhvern bjánaskap eins og þann að þykjast geta bent á Úrúgvæ til þess að réttlæta þetta verðtryggingarskrímsli sem beitt er hérna miskunnarlaust gagnvart heimilum og atvinnufyrirtækjum landsmanna.

Hvar mundi það þykja boðlegt að í lánasamningi skuli öll áhætta vegna verðbreytinga á lánstímanum felld á annan aðila samningssambandsins, að sjálfsögðu þann sem veikari er, og þar sem sterki aðilinn í sambandinu, fjármálastofnunin, er algjörlega varinn fyrir þessari áhættu? Á sama tíma liggur málið þannig að lántaki sem gengst undir verðtryggða skuldbindingu á þess engan kost að verjast þessari áhættu. Þessi áhætta sækir að honum vegna verðhækkana, sækir að honum úr öllum áttum. Það er alveg sama hvort verðhækkanir eru af innlendum toga eða erlendum, vegna hagstjórnarmistaka eða náttúruhamfara eða bara sviptinga í náttúrunni, svo sem vegna uppskerubrests eða hvað má heita hvað, þá skal lántakinn bera á þessu fulla ábyrgð. Og hvernig birtist ábyrgðin sem hann leggur að veði? Jú, í heimilinu, fasteigninni sem hann er að kaupa með þessu verðtryggða láni og svo hans persónulega aflahæfi eftir því sem að fasteignin hrekkur ekki til, ef þannig stendur á að markaðsverð eignarinnar hrekkur ekki fyrir andvirði lánsins eftir að það hefur hugsanlega farið upp í rjáfur eins og við kynntumst í hruninu.

Áfram má telja, herra forseti. Það er ekki hægt að hækka álögur eða gera breytingar, hækka í þessu tilfelli óbeina skatta jafnvel í góðum tilgangi, öðruvísi en að lántakendur eigi að bera það sérstaklega í lánasamningi gagnvart þriðja aðila. Menn eru látnir borga skattinn og svo eiga þeir að borga einhverjum lánveitanda aukalegar greiðslur og hærri höfuðstól. Þegar ríkisstjórnin sem nú situr er með einhverja stefnu í loftslagsmálum og hækkar kolefnisgjald, við það að hún hækkar kolefnisgjald um 2,50 kr. eða hvað það nú er, alla vega um 50% frá því sem áður var, þá stofnast nýjar kröfur á heimilin upp á 500 millj. kr. Af því að ríkisstjórnin er með stefnu í loftslagsmálum á grundvelli samnings sem hún gerði úti í París á alþjóðlegum vettvangi, þá stofnast 500 millj. kr. krafa á heimilin. Hvað hafa fjármálastofnanir unnið til þess að eignast allt í einu himnasendingu, kröfu upp á 500 millj. kr. á heimilin? Hvað hafa heimilin til saka unnið að það skuli stofnast á þau krafa af hálfu fjármálastofnana upp á 500 millj. kr., þar sem allt afl réttarkerfisins er að baki þessari kröfu? Borðalagðir sýslumenn og lögregluþjónar ef því er að skipta.

Varnarleysið er algjört. Þess vegna segi ég að það áhugaleysi sem birtist af hálfu sumra flokka og þetta metnaðarleysi sem birtist hér af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sýnir algjört skeytingarleysi gagnvart hag þessa fólks. Og hvaða hagur er það? Það eru heimilin og vinnustaðirnir þeirra sem eru undir.

Herra forseti. Vextirnir á verðtryggðum skuldbindingum eru ákveðnir. Það er engin markaðsmyndun að baki þessum vöxtum. Það er engin tenging við umheiminn. Það er engin samanburður við umheiminn. Það er hægt að bera óverðtryggða vexti sem svo eru kallaðir saman við það sem gerist og gengur í öðrum löndum en þessir verðtryggðu vextir eru alveg sérstakt fyrirbæri sem hefur ekki fengið neina athygli. Þetta er bara ákveðið. Lántakandinn er búinn að taka að sér með verðtryggingunni að verja lánveitandann, fjármálastofnunina fyrir öllum verðhækkunum, hverju nafni sem þær nefnast, sem er svo sterk skuldbinding og svo víðtæk að stappar nærri að aðili sem gengst undir slíka skuldbindingu sé sviptur fjárforræði á samningstímanum. Þetta þekkja menn úr hruninu.

Við höfum talið ástæðu til þess, til að verja hagsmuni fólks, að meina því að taka lán í annarri mynt en fólk hefur sínar tekjur í og hér hefur allur þorri manna tekjur í íslenskum krónum. Þess vegna er venjulegu fólki ekki heimilað að taka lán í erlendri mynt. Hvað á verðtryggða krónan sameiginlegt með krónunni annað en nafnið? Bara ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er allt annað fyrirbæri. Þessir tveir hlutir, herra forseti, eru eðlisóskyldir og það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að það sé forsvaranlegt, þegar menn á annað borð hafa þá stefnu að meina fólki að taka lán í þeirri mynt sem það hefur ekki tekjur í, til þess að verja hag þess og hagsmuni, að undanskilja verðtryggðu krónuna þegar þetta er uppi.

Herra forseti. Verðtryggði lánamarkaðurinn hér er sá víðfeðmasti sem um getur í landinu. Samt er það svo að af hálfu opinberra aðila hafa engar reikniformúlur verið gefnar út um það hvernig beri að reikna verðtryggð lán. Það hafa engar reikniformúlur verið gefnar út og það er staðfest í nýlegu svari fjármála- og efnahagsráðherra í fyrirspurn um þetta atriði sem ég lagði fram. Fjármálaráðuneytinu er ekki kunnugt um að það hafi verið gefnar út neinar reikniformúlur. Á hinn bóginn þegar maður spyr um eftirlit með þessum hluta fjármálamarkaðarins þá kemur fram í sama svari að það sýnist vera, það er að vísu mín útlegging, ekki þeirra orð, að eftirlitið með þessum hluta fjármálamarkaðarins sé í skötulíki. Að fengnu því svari er algjörlega óhjákvæmilegt að fylgja þeirri spurningu eftir með mjög ítarlegri fyrirspurn um það hvernig Fjármálaeftirlitið stendur að sínum eftirlitsstörfum á þessu sviði.

Hér hefur verið talað um hvítbók og hún var hér til umræðu. Hún hlýtur að geyma markvert framlag um það hvernig Íslendingar koma sér út úr þessu fyrirkomulagi og bara hætta þessu og taka upp eins og gerist og gengur með öðrum þjóðum sambærilega skipun í sínum fjármálum og varðandi fjármögnun heimila. Við mættum sem helst, leyfi ég mér að segja, líta bara til norrænna fyrirmynda í þessu efni. Sjáum t.d. dönsku fyrirtækin sem sérhæfa sig í íbúðafjármögnun. Menn þurfa ekki annað að fletta upp í Jyllandsposten eða Børsen til að sjá það að okkar skandinavísku bræður og frændur eins og í Danmörku (Forseti hringir.) eru að borga innan við 3% vexti á sínum húsnæðislánum.