148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar bara að byrja á því að leiðrétta eitt sem hv. þingmaður sagði, að ég hefði sagt að hugtök skiptu ekki máli. Það er rangt. Hugtök skipta máli. Merkimiðar hugtaka skipta ekki endilega miklu máli. Það skiptir ekki endilega máli hvort fyrirbæri sé kallað rautt eða annað grænt, svo lengi sem við erum sammála um við hvað við eigum við með hvoru um sig. Við þurfum til dæmis ekki að skynja rauðan lit á sama hátt til þess að kalla hann sama nafni. Það skiptir ekki máli hvort hann heitir rauður eða grænn svo lengi sem við erum að tala um sama hlutinn.

Hv. þingmaður sagði þetta vegna þess að ég sagði vissulega áðan að verðtrygging væri í reynd bara form af vaxtafyrirkomulagi. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ósammála þeirri skýringu sem ég gaf á því. Sú skýring sem ég gaf, og var að reyna að vera nákvæmur, þvert á það sem mér skildist á hv. þingmanni, er að ef ekki væri fyrir verðtryggingu myndu vextir bara hækka meira þegar kæmi verðbólguskot. Það er það sem hefur gjarnan gerst í öðrum efnahagsáföllum annarra þjóða þegar kemur verðbólguskot, vextir lána hækka gríðarlega mikið, þ.e. þar sem vextir eru breytilegir. Hér á Íslandi er hægt að segja að vextir séu almennt breytilegir. Lengstu föstu vextir sem ég veit um í húsnæðislánum á Íslandi eru fimm ár. Sem mér skilst að teljist breytilegt alls staðar annars staðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ég nenni eiginlega ekki að karpa um hver sagði hvað, þetta er allt tekið upp og skrifað niður. Það dugar mér svo sem. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að án verðtryggingar við verðbólguskot myndu bankar ekki einfaldlega hækka vexti sem næmi verðbólgunni ofan á þá vaxtahækkun sem þeim annars sýndist.