148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Það er algerlega fjarri mér að leggja hv. þingmanni orð í munn enda gerði ég það ekki. Ég sagði ekki að hann hefði sagt að hugtök skiptu ekki máli. Ég sagði það ekki en hafði eftir honum það sem ég punktaði eftir honum og hann endurtók hér í ræðustól. Það er ánægjulegt og gott að við séum sammála um hver sagði hvað.

En hann spyr — og þá erum við komin að þýðingarmiklu efnislegu atriði, takk fyrir þá spurningu, hv. þingmaður — hvort bankarnir myndu ekki hækka vexti án verðtryggingar. Myndu þeir ekki neyta þess ráðs? Hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir því að samkeppni á milli fjármálastofnana hér er ekki ýkja beysin. Það er kannski sjálfstætt verkefni sem þarf að huga að, að efla þá samkeppni. Þannig stendur á að þegar aðilar — það skiptir ekki máli hvaða markaður það er, við erum að tala um fjármálamarkaðinn núna — hafa aðstöðu til þess að starfa hér við fákeppnisaðstæður er þeim það í lófa lagið; á grundvelli gagnkvæms skilnings, þarf ekki einu sinni samtöl eða skilaboð til vegna þess að skilningur er á milli aðila. Og þetta hefur sést, menn sjá það og ekki er annað að sjá, leyfi ég mér að segja, en að bankarnir hafi með skipulegum hætti verðlagt sín óverðtryggðu lán með því móti að fæla fólk frá þeim og beina þeim að verðtryggingunni sem er sjálfstæð hagnaðaruppspretta fyrir þessar fjármálastofnanir eins og ég rakti ítarlega í ræðu minni.

Það er nauðsynlegt að efla samkeppni á markaði hér.