150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

staða kjarasamninga.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við samþykktum hér rétt fyrir áramót skattkerfisbreytingar sem leiða til aukins jöfnuðar og við hv. þingmaður erum sammála um það, held ég, að þær breytingar eru góðar og þær eru framsæknar, þær skapa aukinn jöfnuð og þær gagnast hinum tekjulágu best. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir aukinni innspýtingu í hið félagslega húsnæðiskerfi í gegnum almennar íbúðir. Það er ákvörðun sem þessi ríkisstjórn tók og það er vegna þess að við viljum létta byrðum af fólki þegar kemur að húsnæðiskostnaði. Barnabætur hafa verið hækkaðar tvö ár í röð af því að við viljum koma til móts við barnafólk, af því að við sjáum líka á þeim gögnum sem við eigum að það hefur setið eftir að einhverju leyti, sérstaklega yngri kynslóðir. Þannig að ég lít svo á að við stöndum í raun og veru í því að innleiða þær breytingar upp á 80 milljarða kr. sem við boðuðum í tengslum við lífskjarasamningana. Síðan erum við að skoða aðrar aðgerðir, eins og ég nefndi hér, sérstaklega fyrirkomulag vaktavinnu í tengslum við kjarasamninga við opinbera starfsmenn sem ég vona líka að geti skilað auknum jöfnuði.