150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

fangelsismál.

[15:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér á landi er fangelsum skipt upp í opin og lokuð fangelsi. Opin fangelsi eru ekki afgirt með afmörkuðum útivistarsvæðum og herbergin eru ekki læst að næturlagi. Vistmenn geta fengið gesti í sínar vistarverur auk þess sem myndavélaeftirlit er minna og aðgengi vistmanna að neti og síma er meira en í lokuðum fangelsum þannig að þetta er að öllu leyti manneskjulegra. Hér á landi er einungis eitt fangelsi sem er skilgreint sem opið og það er á Kvíabryggju. Þar eru að jafnaði rúmlega 20 vistmenn hverju sinni. Sérstaða Kvíabryggju er ekki bara bundin við að það sé skilgreint sem opið fangelsi heldur býr staðurinn við einstaka náttúrufegurð Breiðafjarðar og vistmenn taka þátt í þeim störfum sem þar eru, eins og við sauðfjárbú sem þar er rekið. Heimilismenn taka þátt í þeirri hringrás sem sauðburði, heyskap og smalamennsku fylgir og eru því tengdir náttúrunni á staðnum.

En svo ég komi að efni málsins þá er húsakostur á Kvíabryggju orðinn þröngur og kominn til ára sinna. Aðstaða bæði starfsmanna og vistmanna er mjög bágborin. Engin skilgreind aðstaða er fyrir meðferðaraðila og þurfa sálfræðingar oft að sitja á rúmum vistmanna inni í þeirra vistarverum til að taka viðtöl við vistmenn og engin aðstaða er fyrir hreyfihamlaða. Konur deila sturtuaðstöðu með karlkyns vistmönnum og engin aðstaða er til að aðgreina vistarverur fyrir kynin.

Engum dylst að opin fangelsi eru nauðsynlegur kostur fyrir fanga þegar á að huga að bataferli þeirra sem hljóta fangelsisdóm fyrir brot sín. Gerð hefur verið þarfagreining fyrir fangelsið og búið er að teikna grunnteikningar af viðbyggingu sem myndi bæta þá aðstöðu sem þörf er á og inniheldur aðstöðu fyrir konur og hreyfihamlaða.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Eru einhver áform um að fjölga opnum fangelsisrýmum fyrir konur og eru einhver áform um að bæta aðstöðu vistmanna og starfsmanna á Kvíabryggju?