150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

erfðafjárskattur.

176. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem er lagt fram af þingflokki Viðreisnar og fjallar um erfðafjárskatt. Frumvarpið felur í sér talsverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem er nú á innheimtu erfðafjárskatts eða skattlagningu dánarbúa. Þetta er skattalækkunarfrumvarp, felur í sér að miðað við fyrirliggjandi gögn fá a.m.k. um 80% þeirra sem hljóta arf skattalækkun. Þeir sem hins vegar eru í 20% hlutanum og mest fá munu greiða meiri erfðafjárskatt en núgildandi lög gera ráð fyrir.

Í grundvallaratriðum eru gerðar breytingar sem felast í því, og eru mikil nýmæli, að hætt er að líta á dánarbúið sjálft sem andlag skattsins eða skattstofninn. Þess í stað er miðað við einstaklinginn sem fær arf. Það er sem sagt arfshluti hvers og eins sem er andlag skattsins eða skattstofn. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að skattandlagið eða skattstofninn sé verðmæti dánarbúsins. Það eru reglur um að draga megi frá 1,5 millj. kr. frá verðmæti búsins áður en til skattlagningarinnar kemur. Það sem eftir stendur sætir samkvæmt núgildandi lögum 10% erfðafjárskatti, en fjöldi erfingja skiptir ekki máli. Þeir skipta þá, ef svo má segja, með sér þessari 1,5 millj. kr. sem einhvers konar skattafslætti eða frádragi áður en skatturinn er reiknaður þannig að því fleiri sem erfingjarnir eru þeim mun minna kemur í hvers hlut af þeim afslætti sem veittur er.

Frumvarpið, eins og áður sagði, gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum. Það er í fyrsta lagi að skattstofninn verði ekki lengur verðmæti dánarbúsins heldur sá arfur sem fellur hverjum erfingja í hlut. Þá er það nýmæli sem fylgir þessu að hver og einn erfingi fær frádrag frá sínum arfshluta áður en til skattlagningar kemur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hver og einn erfingi fái með þessum hætti frádrag frá skattstofni upp á 6,5 millj. kr. Í öðru lagi verða tekin upp þrjú þrep erfðafjárskatts. Ef arfur er hærri en 6,5 milljónir og upp að 15 milljónum greiðist 10% erfðafjárskattur af þeim fjármunum sem eru á því bili. Ef arfur er hærri og er á bilinu 15–30 milljónir greiðist 15% erfðafjárskattur af þeirri upphæð sem er á milli 15–30 milljóna. Ef menn fara yfir 30 milljónir í arf er það 15% af 15 milljónum. Og ef arfshlutinn fer upp fyrir 30 milljónir þá greiðist 20% erfðafjárskattur.

Það er kannski handhægast að útskýra þetta með einu eða tveimur dæmum. Ef við gefum okkur að einstaklingur fái 10 milljónir í arf þá þarf hann ekki að greiða skatta af fyrstu 6,5 milljónunum en greiðir 10% skatt af 3,5 milljónum eða 350.000 kr. Samkvæmt núgildandi lögum um erfðafjárskatt myndi hann greiða 850.000 kr. Fái einstaklingur 25 milljónir í arf þarf hann engan skatt að greiða af 6,5 milljónum en greiðir 10% skatt af 8,5 milljónum og 15% skatt af 10 milljónum eða 850.000 plús 1,5 milljónir eða samtals 2,3 milljónir rúmar og er þá kominn á par við það sem nú gildir.

Samkvæmt svari við fyrirspurn til fjármálaráðherra um arf og fjárhæðir erfðafjárskatts sem ég lagði fram á síðasta þingi kemur fram að svokallað miðgildi heildarverðmætis dánarbúa árið 2017 var 14,5 millj. kr. Þetta er ekki meðaltalsverðmæti heldur miðgildið þannig að fyrir neðan 14,5 milljónir er helmingur og fyrir ofan 14,5 milljónir er hinn helmingurinn. Þar kom einnig fram, þegar horft var til arfsins sjálfs eða arfshlutans sem féll í hlut hvers erfingja, að sams konar miðgildi erfingja er 3,5 millj. kr. Síðan kom fram að rúmlega 81% þeirra sem fengu arf fyrir ári var undir 10 millj. kr. Þess vegna má samkvæmt þessu svari áætla með nokkurri vissu að a.m.k. 80% þeirra sem fá arf muni greiða lægri erfðafjárskatt en samkvæmt núgildandi lögum og tillaga okkar í Viðreisn felur í sér að allir sem fá allt að 25 millj. kr. í arf muni greiða minni erfðafjárskatt en nú er.

Til viðbótar þessu kemur að fjöldi erfingja að hverju dánarbúi hefur áhrif á heildarskattinn sem rennur til ríkisins. Þannig er auðvelt að fá það út að ef erfinginn er einn eru 6,5 milljónir ekki skattlagðar. Ef þeir eru tveir eru það 13 milljónir sem ekki koma til skatts og ef þeir eru þrír er það 19,5 milljónir o.s.frv. Þannig að það hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs hversu margir erfingjar eru að hverju búi. Af sjálfu leiðir þegar tekin eru upp fleiri þrep að skatturinn hækkar hjá 20% þeirra sem fá arf. Skatthlutfallið verður þó aldrei hærra, sama hversu mikill arfurinn er, fer aldrei upp fyrir 20%. Má geta þess að það er nú um stundir 2 prósentustigum minna en greitt er í fjármagnstekjuskatt.

Herra forseti. Enginn á tilkall til þess að sá sem hann stendur til arfs eftir láti eftir sig eignir í dánarbúi sem komi til skipta milli erfingja. Í lifanda lífi er hverjum og einum frjáls ráðstöfun eigna sinna í samræmi við lög og reglur. Arfur verður ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að tilviljun ráði hvað komi til skipta og auki þannig eignir og tekjumöguleika erfingja. Það er eðlilegt að þeir erfingjar sem mest fá greiði hlutfallslega mest í skatt. Breytingin stuðlar líka að því að draga úr auðsöfnun á fárra manna hendur, þó í litlu sé. Með því að persónubinda afsláttinn fá fleiri í sinn hlut arf án skattheimtu. Þannig dreifist arfur betur til einstaklinga í samfélaginu um leið og erfðafjárskattur sem kemur í hlut ríkisins við skipti minni dánarbúa, sem allur þorri dánarbúa er eins og hefur komið fram, 80%, mun lækka.

Þetta er þörf breyting án nokkurs vafa. Þetta er skattalækkun. Miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum má lauslega áætla að skattalækkunin til þessara 80% nemi á bilinu 1–1,3 milljörðum kr., varlega reiknað. Tilgangur frumvarpsins er í sjálfu sér ekki að lækka heildarskatttekjur ríkisins af erfðafjárskatti. Hann er fyrst og fremst að létta skattbyrði þeirra sem eru í 80% hluta arfþega, fyrst og fremst að lækka skatta þar. Með þessu er, held ég, komin aðferð sem er í senn sanngjörn og eðlileg og mun í flestum tilvikum leiða til þess að menn fá sinn arfshluta án mikillar eða nokkurrar skattheimtu í mjög mörgum tilvikum og geta notið arfs síns. Þeim sem mest fá, eru í 20% hlutanum, er í sjálfu sér engin vorkunn að greiða skatt sem gæti þegar mest er nálgast 20%. Það er ekki há skattheimta. Ég held að það sé mjög sanngjörn skattheimta og ég held að það sé líka mjög mikilvægt að við horfum á arfinn sem hlut sem fellur í skaut erfingjans þannig að það er ávinningur hans. Það er ekki í sjálfu sér, og það er grundvallarbreytingin, verið að skattleggja búið sjálft. Það er verið að skattleggja þann hluta sem verður til eigna- og tekjuauka fyrir þann sem arfinn hlýtur. Það er eðlilegt að slíkir fjármunir sæti skattheimtu um leið og það er eðlilegt og sanngjarnt að meginþorri, þar sem þessar upphæðir eru í sjálfu sér ekki mjög verulegar, njóti verulegs hagræðis, greiði ýmist ekki skatt eða mun lægri skatt en nú er.

Herra forseti. Ég vænti þess að frumvarpið fái vandaða og góða meðferð og umfjöllun í nefnd en ég legg til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar til frekari umfjöllunar.