150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

180. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar en flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Það er engin tilviljun að stór hluti þessa þingmannahóps situr í Íslandsdeild Norðurlandaráðs því að unnið hefur verið að málum svipuðum þessum innan vébanda þess, samræmingu á skilríkjum milli Norðurlandanna og ekki síst rafrænum skilríkjum. Þessi þingsályktunartillaga er nú flutt í fimmta sinn. Því miður hefur hún ekki náð að verða samþykkt endanlega. Ég hygg, forseti, að um sé að ræða gríðarlega mikilvægt mál sem snertir okkur öll.

Tillögutextinn sjálfur er stuttur, ég ætla að leyfa mér að lesa hann:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að útgáfu öruggra opinberra skilríkja og áætlun um kostnað við að taka skilríkin í notkun. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Þjóðskrár Íslands, ríkislögreglustjóra, Neytendastofu, Samtaka atvinnulífsins og Íslandsrótar auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Þá taki starfshópurinn mið af því starfi sérfræðinga sem nú vinna að samhæfðum norrænum skilríkjum eða kennitölum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Dómsmálaráðherra skipi formann starfshópsins. Ráðuneyti greiði kostnað vegna starfshópsins og leggi honum til aðstöðu og nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Starfshópurinn skili tillögum sínum til dómsmálaráðherra eigi síðar en 1. desember 2020.“

Forseti. Markmiðið með þessum starfshópi og með útgáfu slíkra skilríkja er að þau standi til boða öllum íslenskum ríkisborgurum og borgurum annarra ríkja sem búsettir eru á Íslandi og bera hér réttindi og skyldur. Á meðal þess sem starfshópurinn skoði er hvort hægt sé að gera skilríki sem í dag eru efnisleg, svo sem ökuskírteini, aðgengileg á snjallsímum. Það sem hefur gerst síðan þetta mál var lagt fram síðast er að töluverð vinna hefur átt sér stað í akkúrat því sem hér er komið inn á, þ.e. að ökuskírteini verði aðgengileg á snjallsímum.

Hérlendis eru þrenns konar skilríki í efnislegu formi almennt tekin gild, þ.e. vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini. Ekkert þessara skilríkja fellur undir skilgreininguna á snjallkorti en flest ný, örugg og fjölnota skilríki eru þeirrar gerðar. Vegabréf er þó útbúið með örgjörva sem varðveitir mynd af fingraförum vegabréfshafans. Þjóðskrá Íslands gefur út vegabréf og nafnskírteini en sýslumenn annast útgáfu ökuskírteina. Þjóðskrá gefur einnig út Íslykil sem er lykilorð tengt kennitölu einstaklings eða lögaðila og unnt að nota til samskipta á netinu við ýmsa aðila og ríkisskattstjóri heldur úti veflykli sem veitir aðgang að efni á vefsvæði embættisins.

Það er rétt að taka fram, forseti, að langflest ríki Evrópusambandsins gefa út persónuskilríki í formi snjallkorts. Eru sum þeirra gild ferðaskilríki innan Schengen-svæðisins og í mörgum tilfellum eru rafræn skilríki tengd þeim. Í greinargerðinni er ágætlega farið yfir erlend fordæmi að þeirri hugmynd sem hér er verið að vinna að með stofnun umrædds starfshóps. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í það að þetta er að sjálfsögðu framtíðin, það er hingað sem við stefnum, að við höfum öll okkar öruggu skilríki í snjallsímunum eða á einhvern annan hátt á rafrænu formi.

Hér eru rafræn skilríki gefin út af auðkennaveitunni Auðkenni ehf. sem er í eigu fjármálafyrirtækja og Símans. Rafrænu skilríkin eru annaðhvort innbyggð í debetkort eða í SIM-kort farsíma. Hér var líka minnst á Íslykil sem þjóðskrá gefur út og rétt er að taka fram, forseti, að hér er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á þau skilríki sem við þegar búum við og ég hef hér farið yfir. Öryggisúttekt á rafrænum skilríkjum, sem birt var árið 2013, staðfesti öryggi þeirra rafrænu skilríkja sem gefin eru út hérlendis. Frá vorinu 2008 hefur Íslandsrót, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið starfrækir, gefið út svokölluð milliskilríki sem Auðkenni ehf. beitir síðan til að gefa út endaskilríki eins og þau sem notuð eru í rafrænum viðskiptum og samskiptum almennings.

Síðan þekkjum við, forseti, þau okkar sem brúkum tækni og tól, einnig rafræn skilríki í síma sem hægt er að fá hjá bönkum. Í því efni er ágætt að taka fram að Noregur er meðal þeirra ríkja sem gert hafa breytingar á útgáfu persónuskilríkja til að mæta vaxandi kröfum um þau. Í júní 2015 samþykkti Stórþingið ný lög um persónuskilríki sem fela m.a. í sér að lögreglan hefur fengið það hlutverk að gefa út örugg skilríki til norskra ríkisborgara og ríkisborgara annarra landa sem búsettir eru í Noregi og hafa þar réttindi og bera skyldur gagnvart stjórnvöldum.

Fram til þess að fyrrgreind lög voru sett höfðu bankar í Noregi séð um útgáfu rafrænna skilríkja til viðskiptavina sinna en forsvarsmenn þessara fyrirtækja gáfu stjórnvöldum til kynna að þeir teldu þessu verkefni betur fyrir komið hjá hinu opinbera, enda væri um stjórnsýsluverkefni að ræða. Þetta og fjölmargt fleira sem skilríkjaútgáfu varðar kom fram í ítarlegri greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um persónuskilríki í Noregi árið 2015.

Forseti. Eins og ég nefndi hefur verið unnið að því innan Norðurlandaráðs og ekki síst innan norrænu ráðherranefndarinnar að koma á fót samhæfðum norrænum rafrænum skilríkjum eða kennitölum. Slíkt væri til mikils hagræðis fyrir íbúa Norðurlandanna og ryddi á braut margvíslegum stjórnsýsluhindrunum á milli landanna. Norðurlandaráð hefur staðið fyrir umfangsmiklu starfi til að afnema stjórnsýsluhindranir á milli landanna. Útgáfa öruggra opinberra skilríkja myndi einfalda samræmingu og samhæfingu norrænna rafrænna skilríkja.

Það er fólki mikilvægt að geta fengið örugg skilríki enda byggjast tækifæri til að nýta réttindi, njóta þjónustu og eiga í samskiptum á rafrænum miðlum að verulegu leyti á þeim. Þar sem skilríki geyma jafnan viðkvæmar persónuupplýsingar er áríðandi að gerðar séu fyllstu kröfur um öryggi þeirra. Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja tímabært að taka útgáfu skilríkja hér á landi til gagngerrar athugunar og endurskipuleggja hana með það að markmiði að hið opinbera annist útgáfu öruggra skilríkja, jafnt efnislegra sem rafrænna, og starfræki þá gagnabanka sem nauðsynlegir eru í þessu skyni, enda varðar þetta verkefni grundvallaröryggi borgaranna og á því ótvírætt heima hjá hinu opinbera.

Gerð er krafa um að borgarar séu með skilríki í ýmsum aðstæðum. Hið opinbera gefur út alls kyns efnisleg skilríki, í það minnsta þrjár tegundir af þeim. Það er ekkert eðlilegra en að hið opinbera gefi líka út óefnisleg, rafræn og örugg opinber skilríki. Ég efast ekki um það eina sekúndu að þangað stefnum við og þar munum við enda, þ.e. að við þurfum ekki alltaf að vera að leita dauðaleit að hinum efnislegu og skilríkjum okkar heldur séum við með þau á okkur rafrænt. En nákvæm útfærsla á þessu er eitthvað sem starfshópnum sjálfum verður gert að finna út úr og þess vegna eru tilgreindir sérstaklega þeir sérfræðingar sem með honum starfa, því að það veit sá sem allt veit að ekki er ég sérfræðingur í því. Ég efast hins vegar ekki um það eina sekúndu, eins og ég hef áður sagt, að þetta er hagsmunamál fyrir alla sem búa hér á Íslandi.