150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

180. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hugsunin er sú að maður sé með ein rafræn skilríki sem gilda yfir þau sem maður er með í dag, og þar með talið skilríki sem bankar gefa út. Ég nefndi áðan Noreg þar sem bankarnir báðu ríkið beinlínis um að taka þetta yfir, enda væri um að ræða stjórnsýsluhlutverk. Það má nefna að Svíar hófu útgáfu skilríkja á snjallkorti árið 2005, það eru orðin 15 ár síðan, og að hluta til byggðist ákvörðun sænskra stjórnvalda á því að bankar í landinu höfðu ekki fengist til að veita erlendum ríkisborgurum sem búsettir voru í Svíþjóð þau skilríki sem þessi fyrirtæki létu í té.

Hér eru rakin dæmi um ýmis fjölnota skilríki. Eins og hv. þingmaður nefndi eru Eistar til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Vel má vera að starfshópurinn, verði honum komið á fót, sem ég vona svo innilega að verði, komist að því að allt sem hér er lagt til rúmist innan þess kerfis sem t.d. Auðkenni hefur haft. Það getur vel verið og þá erum við bara þar. Hér er ekki verið að leggja til eitthvað nýtt bara til þess að það sé nýtt, heldur til að finna bestu leiðina til að allir borgarar þessa lands hafi örugg opinber rafræn skilríki.

Ég vil aðeins hnykkja á hvað varðar norræna samstarfið. Það er verið að vinna á vegum sérfræðingahóps, sem norræna ráðherranefndin skipaði, að samhæfðum norrænum skilríkjum. Hluti af því sem gerir þá vinnu svo flókna er að það eru svo margir aðilar sem gefa út rafræn skilríki. Það er að sjálfsögðu bara úrlausnarefni og mun ekki koma í veg fyrir þetta en það gerir úrlausnarefnið aðeins flóknara, ef það svarar að einhverju leyti spurningu hv. þingmanns.