150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

háskólar og opinberir háskólar.

185. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur spurningarnar og andsvarið. Svo að ég komi nú að því sem ég náði ekki að svara, varðandi þá setningu sem er í lögum um háskóla:

„Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.“

Þetta er alveg sama setning og er í greininni í dag þannig að ekki er verið að leggja til neina breytingu á henni. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé til komið vegna þess að við viljum hafa eitthvert viðmið, fólk flæðir á milli landa og þá er hægt að leggja eitthvert mat á það.

Varðandi inntökuprófin, það var hin spurningin. Það er heldur ekki verið að leggja til neina breytingu á því frá núgildandi lögum. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að inntökupróf ættu ekki að vera einhver algild leið inn í háskóla, alls ekki, en það kann að vera að í einhverjum greinum sé þörf á því þar sem námið er með þeim hætti að erfitt er að taka við of mörgum. Við getum tekið sem dæmi tannlækningar eða lækningar þar sem fólk fer áfram í verknám eða starfsþjálfun eða hvað það myndi kallast. Í raun erum ekki að leggja til neina breytingu á því. Það sem hugsað er hér með orðunum: „Leggja skal heildstætt mat á umsækjendur og meta einstaklinga sem hafa lokið stúdentsprófi, sveinsprófi eða öðru fag-, starfs- eða listnámi“, er einmitt nákvæmlega það, að þeir sem ekki hafa lokið stúdentsprófi geti fengið mat á færni sinni og þekkingu. Hún gæti verið á einhverju öðru sviði eins og sveinspróf, listpróf eða eitthvað, eða lífsins reynsla og hvað viðkomandi hefur áorkað í gegnum tíðina. Það er í raun bara það sem við erum að einblína á hér.