150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

staða barna tíu árum eftir hrun.

191. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Forseti. Ég flyt þetta mál ekki sem 1. flutningsmaður þess. Þann sess skipar hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir en ég fæ að leysa hana af í fjarveru hennar. Auk hennar flytja þetta mál þingmennirnir Jón Þór Ólafsson, Þorsteinn Víglundsson, Willum Þór Þórsson, Oddný G. Harðardóttir, Inga Sæland, Gunnar Bragi Sveinsson, Bryndís Haraldsdóttir og sá sem hér stendur. Þessi vaski hópur þingmanna gengur einnig stundum undir því góða heiti talsmenn barna á þingi og sá hópur lýsir með því að leggja þessa tillögu fram ríkum vilja til að kanna stöðu barna tíu árum eftir hrun. Reyndar er það þannig að tíminn líður og nú eru árin víst orðin 11. Það urðu áramót eftir að málið var lagt fram og af því að tíminn líður má líka alveg velta því upp í þessum ræðustól að börnin sem voru í 1. bekk í grunnskóla veturinn sem hrunið varð verða ef mér skjátlast ekki 18 ára á þessu ári. Þau eru sem sagt að hætta að vera börn þannig að það er tímabært að ráðast í þessa heildrænu úttekt á stöðu barna á þeim tíma sem liðinn er frá hruni.

Í tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin skipi starfshóp í samráði við umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, UNICEF, Velferðarvaktina, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir og skoði stöðu barna og meti áhrif hrunsins á stöðu þeirra og líðan á nokkuð víðum grunni út frá félagslegum, sálrænum og efnahagslegum áhrifum, sem og hvar þjónusta við börn var skorin niður og hvort úrbætur hafi verið gerðar á þeim árum sem liðin eru frá hruni. Í því samhengi þarf að sjálfsögðu að líta til ýmissa breyta, svo sem kyns, uppruna, fötlunar, efnahagslegrar stöðu, búsetu og fjölskyldumynsturs.

Þetta er mikilvæg úttekt, þetta er á vissan hátt uppgjör við ferli sem var farið í gegnum á vegum stjórnvalda og hér í þessum sal eftir hrun. Á þessum tímapunkti er gott að meta heildaráhrifin og draga lexíu af þeim viðbrögðum sem urðu við hruninu og þeim breyttu forsendum sem voru fyrir opinberum rekstri á þeim mögru árum sem fylgdu hruninu.

Í upphafi hrunsins var mikið rætt um möguleg langtímaáhrif þess á börn. Með því að samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar verður hægt að kveða upp úr um hver þau hafi verið, hvort brugðist hafi verið rétt við og vonandi eitthvað lært af því sem ekki var nógu vel gert svo við verðum betur í stakk búin til að takast á við áföll næst þegar þau ríða yfir án þess að þau bitni á börnum eða öðrum jaðarsettum hópum í samfélaginu.