153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ríkt tilefni til að ræða þetta mál undir liðnum um fundarstjórn forseta, einfaldlega vegna þess að málið hefur hvorki verið rætt í hv. utanríkismálanefnd né í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eða fjárlaganefnd. Það er óboðlegt að ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar leiði til þess að nauðsynleg öryggistæki, grunninnviðir, séu seld til að hægt sé að halda úti öðrum rekstri. Við erum að tala um einu flugvélina sem Landhelgisgæslan á, flugvél sem var keypt eftir fjögurra ára skoðun, vandlega yfirvegun. Hlutverk vélarinnar er að hafa eftirlit með lögsögu, fiskveiðieftirlit, og vera liður í almannavörnum og við erum með stríð í Evrópu á sama tíma. Öll ríki eru að byggja upp sínar varnir en ríkisstjórnin heldur svo ótrúlega illa á fjármálum ríkisins að í stað þess að sækja fjármagn þar sem hægt væri að sækja það þá fer hún í að selja grunninnviði, öryggistæki. Til hamingju, Ísland.