153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég held að flestum landsmönnum, þar á meðal mér, hafi brugðið við að heyra fréttir gærkvöldsins um að það ætti að selja þessa vél. Maður hafði hvergi heyrt það í umræðunni nokkru sinni að þetta stæði til. Mér fannst það skrýtið að hlusta á forstjóra Landhelgisgæslunnar lýsa þessu yfir af því að það kom greinilega í ljós að hann var mjög ósáttur. Og þegar hann lýsir stöðunni um þær stoðir sem Landhelgisgæslan byggir á þá er flugvélin ein af þeim þremur grunnstoðum sem Landhelgisgæslan byggir á. Aðrar eru þá þyrlurnar og skipin. Ef hægt er að gera þetta með þessum hætti, getur þá viðkomandi ráðherra bara gripið til þess að selja aðrar stoðir þegar honum sýnist svo? Verða varðskipin seld næst, eða hvað gerist?