153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Eitthvað eru nú samskiptin í stjórnarflokkunum lítil ef formaður fjárlaganefndar kemur af fjöllum varðandi það að dómsmálaráðherra ætli að selja einn af grunninnviðum Landhelgisgæslunnar. Ef við skoðum líka fjármálaáætlun sem var samþykkt hérna á síðasta vetri þá er þar vikið að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem er talað um að það þurfi að auka eftirlit með aukinni viðveru TF-Sifjar og ráðuneytið segir bara að það verði áskorun komandi ára að vinna úr þessu og tryggja fjármagn til að bregðast við þeim kostnaði sem í því felist. Það er ekki bara að það hafi ekkert komið fram hér á þingi um að það eigi að selja þessa vél heldur hefur beinlínis verið sagt að það þurfti að treysta grundvöll rekstursins. Það að ráðherra ákveði þetta upp á sitt einsdæmi á sama tíma, og það er nú á tengdu rekstrarsviði, og það eru þrjú ár liðin síðan var ákveðið að fara í tilraunaverkefni með sjúkraþyrlur til að létta þeim rekstri af Landhelgisgæslunni, (Forseti hringir.) það stóra hagsmunamál fyrir íbúa dreifðari byggða landsins hefur setið á hakanum (Forseti hringir.) hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobssdóttur og nú á að bíta höfuðið af skömminni og henda flugvélinni úr landi líka.