153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í vikunni komu fram upplýsingar, raunar undir áramót en í vikunni spannst umræða um það að kostnaður við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins væri að hækka mjög mikið frá upphaflegum áætlunum, 50 milljarðar raunar. En það er eitt tiltekið atriði þar sem sker sig sérstaklega úr sem er breyting á Sæbraut þar sem er horfið frá áætlunum um mislæg gatnamót og farið í stokkagerð sem hækkar kostnaðinn við Sæbrautarverkefnið um 650% eða 15 milljarða. Á sama tíma er áætlað að byggja stokka á þremur svæðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir samtals 54.000 milljónir og sú tala á alveg örugglega eftir að hækka. Nú heldur hæstv. fjármálaráðherra á meginþorra hlutabréfa í fasteigna- og þróunarfélaginu Betri samgöngum ohf. Lítur ráðherra svo á að félagið hafi stöðu til að taka ákvarðanir um breytingu verkþátta sem gjörbreyta kostnaði og kalla þar af leiðandi á auknar tekjur fyrirtækisins, væntanlega í formi hærri tafagjalda eða borgarlínuskatts eins og rétt væri að nefna það? Þetta er fyrri spurningin.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um áform sem virðast nú liggja fyrir um að byggja þrjá stokka á höfuðborgarsvæðinu sem eiga að kosta 54 milljarða. Innviðaráðherra upplýsti það hér í þinginu síðastliðinn þriðjudag að ekkert samtal hefði átt sér stað um hver njóti tekna af sölu lands sem verður til í tengslum við byggingu stokkanna. Sjálfum þykir mér augljóst að þær tekjur skuli ganga til Betri samgangna ohf., en hver er afstaða hæstv. ráðherra?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi enn sem komið er, haldandi á meginþorra hlutabréfa í þessu félagi, séð rekstraráætlun fyrir verkefnið?