Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

frumvarp til útlendingalaga.

[11:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn þar sem hún spyr að því hvort sá sem hér stendur geti stutt frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra Jóns Gunnarssonar. Fyrst ber að segja að það liggur auðvitað ljóst fyrir að frumvarp sem fer í gegnum ríkisstjórn, í gegnum þingflokka og er komið hér til umræðu á Alþingi nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar. Það er m.a. eitt ákvæði í þessu frumvarpi þar sem beinlínis er verið að leggja skyldur á herðar barnamálaráðuneytisins þegar kemur að sérstöku hagsmunamati og smíði sérstaks hagsmunamats, það er verið að setja inn nýja lagagrein eða skerpa á lagagrein sem lýtur að því að í hvert sinn sem verið er að vinna með málefni barna í þessu kerfi þurfi að gera sérstakt hagsmunamat og unnin skuli reglugerð um það í samvinnu dómsmálaráðuneytis og þess ráðherra sem fer með barnaverndarmál hverju sinni. Það er svo að þegar við vinnum með málefni barna, alveg sama hvort það eru einstaklingar sem eru komnir hingað á flótta, fylgdarlaus börn í fylgd með öðrum, þá þarf að vinna ákveðið hagsmunamat og það þarf að skerpa á því hvernig það er unnið og það er leiðin til að meta í hverju sinni málefni barna. Þar þarf að tryggja að þegar við erum að vinna með stöðu þessara barna þá sé ekki verið að hugsa um fjölskylduna í heild, það sé ekki verið að hugsa um öll systkini saman heldur hvern og einn einstakling, hagsmunir hans séu vegnir og metnir. Það er beinlínis sagt í lagatextanum að þessi reglugerð verði unnin í samvinnu dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis og ég fagna þeirri breytingu á lögunum vegna þess að hún setur auknar skyldur á okkur sem samfélag að gera akkúrat það sem hv. þingmaður var að kalla eftir, að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti. Það verður gert í smíði þessarar reglugerðar og við erum þegar byrjuð á undirbúningi samtals við dómsmálaráðuneytið um það, verði þessi lög samþykkt á Alþingi.