Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram ræðu minni, bútaræðunni. Ég var að fara yfir þá „þjónustu“ sem umsækjendum um alþjóðlega vernd býðst í Svíþjóð. Við ætluðum að líta yfir það hversu mikið er verið að aðlaga okkar kerfi að kerfunum á Norðurlöndunum eins og ranglega er haldið fram í greinargerð. Í Svíþjóð ber einstaklingum sem fá synjun við umsókn um alþjóðlega vernd að fara úr húsnæði því sem hælisleitendum er ætlað þegar niðurstaða er fengin. Fjölskyldufólki er ekki vísað á brott. Fullorðnum hælisleitendum í Svíþjóð býðst bráðaþjónusta við heilsufarsvanda sem þýðir að brugðist er við sjúkdómum og kvillum sem ekki geta beðið en börnum og ungmennum undir 18 ára aldri stendur til boða sama heilbrigðisþjónusta og sænskum jafnöldrum þeirra. Öllum hælisleitendum í Svíþjóð stendur endurgjaldslaus heilsufarsrannsókn til boða og ýmis ráðgjöf. Það eru ákveðin komugjöld, það er lágmarksgjald fyrir lyfseðilsskyld lyf. Verði útgjöld vegna heilbrigðisþjónustu hærri en 400 sænskar krónur er unnt að sækja um endurgreiðslu frá innflytjendastofnuninni. Þannig er þetta. Það eru úrræði þar sem boðið er upp á matstofu en þá fá einstaklingar 24 sænskar krónur á dag ef þeir búa einir, en 19 ef um er að ræða par í hjúskap eða sambúð. Börn undir 17 ára aldri fá 12 sænskar krónur á dag. Þetta er vasapeningur. Þetta er í ofanálag við húsnæði, mat og heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi er umsækjendum ekki séð fyrir mat þannig að þessar 10.400 kr. sem þeir fá á viku eiga að duga fyrir öllu, mat og hreinlætisvörum og öllu. Þar sem ekki er svona matstofufyrirkomulag fá fullorðnir einstaklingar sem búa einir 71 sænska krónu á dag en fólk í sambúð 61 kr. Börn til þriggja ára aldurs fá 37 sænskar krónur á dag, 4 til 10 ára 43 kr. og börn á aldrinum 11–17 ára fá 50 sænskar krónur á dag. Ég endurtek: Þetta er allt í ofanálag við öruggt húsnæði, heilbrigðisþjónustu og mat — nei fyrirgefið, þetta er þar sem ekki er matur.

Heimilt er að lækka greiðslur ef fólk er ekki samvinnufúst, t.d. um að segja á sér deili eða veita upplýsingar vegna umsóknar sinnar og eins ef fólk er ekki samvinnufúst um heimferð eftir að hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd; þá lækka greiðslurnar, þær eru ekki felldar niður. Þegar synjað er um alþjóðlega vernd er jafnan tiltekinn sá frestur sem umsækjendum er veittur til að yfirgefa landið. Kærufrestur er þrjár vikur. Í Svíþjóð er synjunum á umsókn um alþjóðlega vernd vísað til dómstóls og að jafnaði er fólki heimil landvist í Svíþjóð þar til dómstóllinn hefur fellt úrskurð sinn. Fólki sem ekki hefur fengið alþjóðlega vernd í Svíþjóð býðst aðstoð við að snúa til fyrri heimkynna. Ef fullorðnir einstaklingar sem ekki eru með börn á framfæri dvelja áfram í Svíþjóð eftir að þeim er orðið það óheimilt má fella niður greiðslur til þeirra og minnka fjárhagsstuðning við barnafjölskyldur. Reynist einstaklingur, sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, ekki samstarfsfús um heimför getur svo farið að innflytjendastofnunin ákveði að innleiða tilkynningarskyldu en í henni felst að viðkomandi þarf reglulega að gera vart við sig hjá innflytjendastofnuninni eða lögreglu. Að jafnaði gildir ákvörðun um tilkynningarskyldu í sex mánuði en hana má framlengja. Innflytjendastofnunin, lögregla eða dómstóll getur fellt úrskurð þess efnis að hælisleitandi sem fengið hefur synjun um alþjóðlega vernd og ekki hefur farið frá Svíþjóð innan tilskilins frests skuli sæta varðhaldi. Í því felst að viðkomandi er settur í varðhald. Misjafnt er hversu lengi varðhaldsúrskurður gildir en heimilt er að framlengja hann í allt að 12 mánuði. Heimilt er að vista þá sem úrskurðaðir hafa verið í varðhald í fangelsum sem sænska lögreglan eða Fangelsismálastofnun Svíþjóðar starfrækja en unnt er að vísa úrskurði um slíkt til dómstóls.

Ég er fallin á tíma eina ferðina enn, ég verð að fá að halda áfram í næstu ræðu. Ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.