Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka til máls undir þessum lið þar sem verið er að ræða frumvarp sem fjallar um breytingar á lögum um útlendinga. Mér skilst að verið sé að fjalla um þetta frumvarp með einhverjum breytingum í fimmta skipti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um er að ræða mjög umdeilt mál; svo umdeilt að frumvarpið hefur ekki náð fram að ganga þrátt fyrir þessa endurteknu framlagningu.

Mig langar kannski fyrst að fjalla um andrúmsloft sem er til staðar á Íslandi vegna þeirrar stöðu sem uppi er nú þegar stríð geisar í Úkraínu og milljónir íbúa hafa lagt á flótta frá landinu til bjargar sér og sínu fólki. Við Íslendingar gerðum eins og okkur ber að gera sem siðmenntuð þjóð, það er að bjóða fólk frá Úkraínu velkomið til landsins. Reikna má með að til Íslands hafi komið u.þ.b. 2.000 einstaklingar frá Úkraínu á síðasta ári og það er útlit fyrir að framhald verði á þessu hræðilega stríði sem Rússar bera svo sannarlega ábyrgð á. Það mun að sjálfsögðu leiða til þess að flóttamenn munu halda áfram að streyma frá Úkraínu en sá fjöldi sem leitar til Íslands er hins vegar aðeins brotabrot af þeim fjölda sem flýr landið; fólk leitar fyrst og fremst til landa sem liggja næst Úkraínu, svo sem eins og Póllands. Mér skilst að fjöldi úkraínskra flóttamanna sé nú kominn yfir átta milljónir og mun halda áfram að aukast. Það er hin skelfilega niðurstaða af þessu stríði sem nú ríkir.

Kærunefnd útlendingamála tók þá ákvörðun að ekki væri réttlætanlegt að vísa flóttafólki frá Venesúela burt þar sem aðstæður í landinu væru hættulegar vegna ógnarstjórnar sem þar ríkir. Þar er fólk handtekið og tekið af lífi fyrir það eitt að vera annarrar skoðunar en ríkjandi stjórnvöld. Það hefur m.a. verið stofnuð sérstök deild innan lögreglunnar sem tekur að sér þessi sóðaverk ríkjandi stjórnvalda og hafa nú á þriðja tug þúsunda verið tekin af lífi á undanförnum árum eða allt frá því að sérsveit var stofnuð á árinu 2016. Rétt eins og í Úkraínu hafa milljónir lagt á flótta frá Venesúela og eins og í Úkraínu dvelja flestir í nágrannaríkjum. Hins vegar hefur hópur fólks leitað til Evrópu eftir landvist og til Íslands komu u.þ.b. 1.000 einstaklingar á síðasta ári sem eiga rétt á að dvelja hér samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála. Því miður er það svo að þessi staða litar umræðuna þar sem það reynir á innviðina þegar svona stór hópur leitar eftir hjálp á sama tíma.

Þessi staða er af mörgum nýtt til að halda því fram að hér sé allt að fara fjandans til, að við ráðum ekki við stöðuna og það sé allt of mikið álag á innviðina. Ef við drögum þessa hópa frá þá stendur eftir tiltölulega fámennur hópur sem við ættum í venjulegu árferði að geta sinnt af alúð og virðingu. Sú umræða sem við erum að upplifa hér í þinginu sýnir hins vegar að það er djúp gjá á milli þingmanna um ágæti þessa frumvarps og tilganginn með því.

Í 2. lið greinargerðar með frumvarpinu um tilefni og nauðsyn lagasetningar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að þeir sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd fái réttláta og vandaða málsmeðferð. Fjölgun umsókna undanfarinn áratug sýnir hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt upp með þeim hætti að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki. Þegar stjórnsýslan hér á landi stendur frammi fyrir áskorunum sem leiðir af mikilli fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd er brýnt að rýna í þróunina í því skyni að meta hvort sú þróun eigi sér eðlilegar skýringar eða hvort nauðsynlegt sé að breyta regluverki eða framkvæmd hér á landi til að bregðast við stöðunni. Við slíka athugun þarf að taka mið af regluverkinu og framkvæmd hér á landi, alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði en jafnframt regluverki og reynslu nágrannaríkja eins og annarra Norðurlanda sem íslensk stjórnvöld bera sig gjarnan saman við.“

Virðulegur forseti. Þegar ég sá þetta orðalag, og ég feitletraði það í textanum mínum, hvort sú þróun eigi sér eðlilegar skýringar, þá veltir maður því fyrir sér hvort hægt sé að ætla fólki það að reyna að smygla sér inn í landið á einhverjum fölskum forsendum, fólki sem leggur sig og fjölskyldu sína í mikla hættu, eyðir miklum fjármunum í að tryggja sér far, oftast yfir Miðjarðarhafið, á einhverjum bátkænum, hriplekum á köflum, og á von á því að deyja á leiðinni — að við séum þá að væna fólk um að það búi eitthvað óvenjulegt að baki þar. Ég fæ því miður ekki annað séð en að það sé verið að nýta sér þetta ástand, ástandið í Venesúela og stöðuna vegna stríðsins í Úkraínu til að herða þessa löggjöf sem til staðar er og var samin, að mér skilst, og lögfest í sátt og samlyndi margra þeirra sem um þennan málaflokk fjalla og hafa fjallað.

Margir hafa lýst þeirri skoðun sinni að þetta frumvarp sé eingöngu til þess ætlað að koma fólki úr landi eins fljótt og hægt er. Það er sú skilvirkni sem frumvarpinu er ætlað að ná fram. Breytingarnar munu flestar leiða af sér lengri og erfiðari málsmeðferð og gera stöðu fólks verri og þyngri sem leiðir til aukins kostnaðar, bæði fyrir ríkissjóð og samfélagið allt. Raunverulegt markmið breytinganna sé að skapa fælingarmátt svo fólk hætti að leita til Íslands. Reynsla okkar hér á Íslandi og annarra ríkja hefur sýnt að þetta virkar ekki.

Mig langar að leyfa mér að fjalla um eitthvað af þeim umsögnum sem sendar voru til Alþingis vegna þessa frumvarps, eða nefndarinnar sem um þetta fjallar. Flestar eiga það sammerkt að tala gegn frumvarpinu og ekki fæst séð að á þá gagnrýni hafi verið hlustað þegar þetta frumvarp var til umfjöllunar í nefndinni. Þá hef ég, sem ekki sit í þessari nefnd, fengið staðfestingu á því að nánast allir sem komu fyrir nefndina hafi talað mjög gegn þessu frumvarpi.

Ég byrja á umsögn Barnaheilla, þar sem segir:

„Samtökin fagna því að lagt er til í frumvarpinu að sett verði reglugerðarheimild um mat á hagsmunum barna og að ætlunin sé að gert sé ráð fyrir að undirbúningur reglugerðar um barnvænt hagsmunamat á umsóknum um alþjóðlega vernd verði samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis. Í fyrri umsögnum Barnaheilla hefur ákall eftir skýrari framkvæmd á mati á áhrifum ákvarðana útlendingayfirvalda á börn verið snar þáttur og því er ánægjulegt að sjá þá þróun sem hér má merkja. Barnaheill taka hins vegar undir umsagnir Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rauða krossins og vilja nefna sérstaklega að kallað hefur verið ítrekað eftir samráði um breytingar á útlendingalögum en því kalli hefur ekki verið svarað og er það miður að mati samtakanna. Barnaheill leggja sem áður áherslu á mikilvægi þess að allar ráðstafanir eða ákvarðanir yfirvalda er varða börn séu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu, sbr. 3. grein barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Af því leiðir að allar takmarkanir á réttindum barna sem festa á í lög þarf að rökstyðja og byggja á raunverulegu mati á áhrifum þeirra ákvarðana á líf barna sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd.“

Þá segir einnig í umsögn Barnaheilla:

„Barnaheill hvetja íslensk stjórnvöld til að taka aukinn þátt í flóttamannavanda heimsins með því að rýmka frekar möguleika flóttafólks, sér í lagi barnafjölskyldna, til að öðlast hér alþjóðlega vernd og axla þannig ábyrgð sína á sameiginlegu verkefni alls heimsins, flóttamannavandanum, sem m.a. má rekja til loftslagsvandans sem vestræn ríki eiga stóran þátt í að hafa valdið. Til þess þarf að leggja fram aukið fjármagn og fjölga starfsfólki Útlendingastofnunar og gera betur fyrir hvern og einn einstakling í stað þess að draga úr einstaklingsréttindum flóttafólks. Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samtökin leggja áherslu á bann við mismunun og að jafna tækifæri allra barna til að njóta bestu mögulegu lífsskilyrða.“

Í 3. gr., virðulegur forseti, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: „Það sem barni er fyrir bestu […]“. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það geti verið barni fyrir bestu, barni sem hefur verið á flótta kannski mánuðum eða árum saman, að því sé vísað úr landi. Getur það verið barni fyrir bestu að því sé vísað til landa sem ekki eru örugg og það muni ekki njóta þess atlætis sem það gæti búið við hér á landi? Getur það verið barni fyrir bestu að barnið fái ekki notið fjölskyldusameiningar?

Í 2. gr. barnasáttmálans segir að öll börn eigi að vera jöfn. Erum við að standast þetta ákvæði barnasáttmálans þegar börn sem hingað hafa leitað ein eða með fjölskyldu eru rifin úr skóla, sett upp í flugvél og send úr landi út í óvissuna? Kannski er verið að senda þau til lands sem hefur verið komið fyrir á lista yfir það sem Útlendingastofnun telur og hefur skilgreint sem öruggt land en er í raun í miklum erfiðleikum, lands sem hefur verið í miklum efnahagslegum erfiðleikum en einnig vegna mikils fjölda sem skolað hefur á land. Hvernig fær það staðist að við séum að tryggja börnum sem við sendum út í slíka óvissu jöfn tækifæri?

Í lokaorðum Rauða krossins segir m.a.:

„Rauði krossinn hefur ítrekað gagnrýnt skort á samráði og samtali við aðila sem starfa í málaflokknum og hafa til þess sérþekkingu og reynslu við gerð frumvarpsins, sem og neðangreindra frumvarpa sem ekki hafa náð fram að ganga. Telur félagið mikilvægt að þær víðtæku lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu unnar í þverfaglegu samráði svo sátt geti skapast um stefnu og lagaumhverfi í málefnum fólks á flótta.

Telur Rauði krossinn að með fyrirliggjandi breytingum í frumvarpinu sé litið fram hjá varnarorðum fjölmargra umsagnaraðila, sem leiða má líkum að að skili sér í ómannúðlegra en í senn óskilvirkara kerfi þegar á botninn er hvolft.

Fulltrúar Rauða krossins eru reiðubúnir að gera nánari grein fyrir athugasemdum félagsins sé þess óskað.“

Svo virðist, virðulegur forseti, að ekkert samráð hafi verið haft við fulltrúa Rauða krossins né heldur aðra umsagnaraðila eftir framlagningu frumvarpsins sem væntanlega hefur verið unnið á borði dómsmálaráðherra og eftir atvikum Útlendingastofnunar, sem er auðvitað dapurlegt, sérstaklega í ljósi þeirrar þekkingar sem þessir aðilar búa yfir.

Í umsögn Læknafélagsins, sem send var 5. desember, segir:

„LÍ vill þó árétta þá afstöðu að kalli útgáfa heilbrigðisvottorðs á heilbrigðisskoðun eða læknisrannsókn á grundvelli nýrrar 3. mgr. 17. gr. laganna, verði frumvarpið að lögum, og viðkomandi samþykkir ekki slíka rannsókn þá verður hún aldrei framkvæmd að mati LÍ nema að undangengnum dómsúrskurði.

Vegna 6. gr. frumvarpsins, sem breytir 8. mgr. 33. gr. laganna, leggur LÍ þunga áherslu á að það takist innan 30 daga tímafrestsins að framfylgja ákvörðun svo ekki komi upp sú staða að þessi hópur njóti almennt ekki þeirra grunnmannréttinda sem heilbrigðisþjónusta telst vera. Vissulega er í ákvæðinu tekið fram að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Ákvæðið gerir ekki ráð fyrir að almenn heilbrigðisþjónusta falli þar undir. Að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi eins og áður segir eins og fram kemur í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest.“

Þá veittu, virðulegur forseti, prestar innflytjenda og flóttafólks einnig umsögn um þetta frumvarp og það er kannski sú umsögn sem ég á auðveldast með að tengja við, kannski bara vegna þess að hún er skrifuð á mannamáli ekki tungutaki sem ég er enn þá að læra.

Þar segir:

„Ein af meginskyldum okkar sem prestar innflytjenda er að vera málsvari fyrir þann hóp sem til okkar leitar.

Í þessari umsögn beinum við athyglinni að 6. gr. frumvarpsins.

Undirrituð telja að breytingartillaga 6. gr. sem felur það í sér að réttur umsækjenda um alþjóðlega vernd verði felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli hans á stjórnsýslustigi, muni hafa afar neikvæð áhrif á þá einstaklinga sem falla undir ákvæðið. Ef breytingin nær fram að ganga þá þýðir það að grundvallarþjónusta er varðar heilsu, öryggi og velferð verður tekin frá viðkomandi einstaklingum sem þurfa þá að leita skjóls á götunni, hafi þau ekki yfirgefið landið sjálfviljug. Að okkar mati hlýtur slík framkvæmd af hálfu ríkisins að stangast á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og skyldu okkar til að standa vörð um velferð allra sem dvelja á landinu.

Þær manneskjur sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd hafa yfirleitt lítið eða ekkert tengslanet hér á landi. Þau sem njóta ekki lengur stuðnings stjórnvalda, eru því líklegri til þess að finna sig í óæskilegum aðstæðum til þess eins að sjá fyrir sér. Það er staðreynd að fólk á flótta er viðkvæmur hópur sem er berskjaldaðri en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb mansals og ofbeldis. Við teljum afar mikilvægt að hlúa áfram að þessum hópi til þess að það hann komist ekki í slíkar örvæntingarfullar aðstæður að það skapi ný vandamál sem hefðu afar neikvæð áhrif á þessa einstaklinga og samfélagið allt.“

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég sé að ég er búinn með tíma minn og alls ekki búinn með ræðuna mína, þannig að ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.