Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þessa spurningu, hvort ég sjái fyrir mér að skilvirkni sé að aukast með frumvarpinu eða að mannúðin sé að aukast. Það getur vel verið að það sé hægt að túlka það á þann hátt að skilvirkni aukist en þá er það bara spurning: Skilvirkni fyrir hvern? Er það fyrir Útlendingastofnun eða er það fyrir viðkomandi aðila sem þurfa að sækja aðstoð? Ég er ekkert svo viss um að ég geti metið það þannig að sá sem þarf að leita hingað eftir aðstoð telji að einhver skilvirkni sé fólgin í því að vera rekinn fyrr úr landi eða, ef hann á þess ekki kost að fara úr landi, að hann sé hreinlega settur á götuna. Ég sé ekki að það sé skilvirkni sem þjóni þeim sem þurfa á hjálp okkar að halda. Við erum auðvitað núna að takast á við sérstakar aðstæður, ég tek bara undir það að þetta eru erfiðar aðstæður fyrir alla. Þetta eru sérstaklega erfiðar aðstæður fyrir fólk sem er að upplifa hörmungar stríðs eða bara miklar ofsóknir eins og fólk gerir í Úkraínu, þar sem fólk er drepið heima hjá sér, þar sem verið er að skjóta beint inn í íbúðina hjá fólki, eða í Venesúela þar sem fólk er tekið af lífi fyrir að opna munninn og andmæla yfirvöldum. Ég hef samúð með þessu fólki og tel eðlilegt og rétt að við reynum að taka á móti þessu fólki af einhverri virðingu.