Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir var í sinni síðustu ræðu og fjalla aðeins um 6. gr. frumvarpsins vegna þess að það sló mig dálítið að heyra hvernig hv. þm. Birgir Þórarinsson talaði. Að fá þar innsýn í hugarheim stjórnarliða var kannski gagnlegt, hann fór mikinn um það að Reykjanesbær væri nú bara alveg að sligast undan því að þjónusta fólk með alþjóðlega vernd, eða flóttafólk almennt, sem ég held að sé ekki hægt að færa til sanns vegar. Vissulega eru áskoranir þegar sveitarfélög stækka ört eins og Reykjanesbær hefur gert á síðustu árum, bæði vegna aðflutnings fólks sem hefur fæðst á Íslandi en líka fólks sem hefur fæðst í öðrum löndum og á því hefur verið tekið. Það þarf að byggja upp ákveðna innviði. Það þarf að gera og græja ýmislegt en það er bara það sem sveitarfélög gera. Þau þroskast og stækka, þau vaxa þannig að þau passi utan um líkamann sem íbúarnir eru. En hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði að 6. gr. væri, með leyfi forseta, „mikilvæg grein til að sjá til þess að kerfið verði skilvirkara og við getum kontrólerað þá sem eru að koma til landsins“.

Ég á dálítið erfitt með að ná alveg utan um þessa hugsun vegna þess að 6. gr. snýst um brottfall grundvallarþjónustu er varðar heilsu, öryggi og velferð. 6. gr. snýst um að taka þetta af fólki þannig að fólk þurfi að leita skjóls á götunni, hafi það ekki yfirgefið landið. Í þessari stöðu þegar ríkið er búið að snúa algjörlega baki við fólkinu þá getur það mögulega leitað til hjálparsamtaka eða það sem er líklegast, þá leitar það til sveitarfélaga sem eru nærþjónustan, sú næsta félagsþjónusta sem fólk getur leitað til. Sveitarfélögin hafa kannski ekkert miklar bjargir handa þessum hópi en þó einhverjar.

Tilgangurinn með þessari grein er náttúrlega bara að svelta fólk til hlýðni til að það fari sjálft úr landi, heim til ríkisins sem það var að flýja ofsóknir. Það getur valið á milli þess að vera ofsótt heima hjá sér eða svelt á Íslandi. Þetta kalla stjórnarliðar mikilvæga grein til að sjá til þess að kerfið verði skilvirkara og við getum stýrt þessu fólki. Oft er talað um þessa innbyggðu togstreitu í útlendingalögunum á milli markmiða um mannúð og skilvirkni en ég held að sjaldan hafi sú togstreita birst jafn skýrt og í þessum andsvörum stjórnarþingmannsins Birgis Þórarinssonar, þar sem hann sýnir bara svart á hvítu; skilvirknin snýst um að pína fólk til hlýðni og þá má mannúð sín lítils.

Eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir nefndi þá er nú þessi þjónusta sem fellur brott ekki beysin. Fólkið sem nýtur hennar getur varla lifað mannsæmandi lífi. Það fær örlitla vasapeninga. Það hefur ekki heimild til að sjá sér sjálft farborða þótt mörg vilji. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Margt af því fólki sem flýr til Íslands, hvort sem það lítur á dvöl sína sem tímabundna eða varanlega, þá vill það bara geta tekið eðlilegan þátt í eðlilegu samfélagi. Það er kannski að flýja stríðsátök sem hafa varað árum saman og varla að það þekki það að búa í venjulegu samfélagi. Það vill bara fara að vinna og senda krakkana sína í skóla og fara í útilegur um helgar þegar gott veður er á sumrin. Það vill bara fá að vera venjulegt fólk og til þess þarf það ekki neina þjónustu frá Útlendingastofnun sem andstæðingar flóttafólks tala gjarnan um að sé mikill baggi á ríkissjóði. Það þarf bara að hleypa því miklu hraðar og fyrr inn í landið sem eðlilegum þátttakendum í því eins og þeim þúsundum fólks sem flytja til landsins frá öðrum löndum af EES-svæðinu á hverju einasta ári.