Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:59]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Aðgerðir og barátta gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum er ærið verkefni. Það er því ánægjulegt að niðurstöður fyrstu eftirlitsskýrslu nefndar vegna Istanbúl-samningsins um Ísland séu jákvæðar. Þannig fagnar eftirlitsnefnd Evrópuráðsins víðtækum ráðstöfunum sem íslensk yfirvöld hafa gripið til til þess að standa vörð um réttindi kvenna og jafnrétti á Íslandi. Forgangsröðun hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki skilar augljóslega árangri en þótt niðurstaðan sé heilt yfir jákvæð er þar sömuleiðis að finna ýmis tilmæli til Íslands um hvað megi betur fara. Í skýrslunni er m.a. bent á nauðsyn þess að skoða þætti sem hafa ekki verið í forgrunni hér, m.a. heiðursmorð og umskurð eða kynfæralimlestingar kvenna. Á Íslandi er staða mannréttinda góð í alþjóðlegum samanburði og það á við um flest ríki í hinum vestræna heimi þótt við höfum þurft að vera á varðbergi að undanförnu. Víða annars staðar er staðan allt önnur. Í fjölmörgum ríkjum er misskipting og fátækt útbreidd og ofbeldi og mismunun gegn konum viðgengst þar sem jafnrétti kynjanna er verulega ábótavant og skaðlegar menningarhefðir eru útbreiddar, hefðir eins og umskurður kvenna. Áætlað er að yfir 200 milljónir kvenna hafi sætt kynfæralimlestingum, þar með talið um 600.000 konur á EES-svæðinu. Við þekkjum jafnvel dæmi um slíkt hrottafengið ofbeldi á Norðurlöndunum, ofbeldi sem er iðulega kerfisbundið og með samþykki og fyrir tilstuðlan forráðamanna. Stúlkur sem verða fyrir kynfæralimlestingum eru beittar ólýsanlegu ofbeldi og bera ævilangt ör, bæði líkamlegt og sálrænt. Þótt við höfum þegar lögfest bannákvæði við þessu í almennum hegningarlögum, með vísan til reynslu m.a. Norðurlandanna, hljótum við að taka ábendingu eftirlitsnefndarinnar alvarlega.

Ég vil þakka málshefjanda fyrir frumkvæðið og öðrum hv. þingmönnum sem ég hef hlýtt á í þessari þörfu umræðu.