Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Frú forseti. Ég var ekki fullbúinn í minni fyrstu ræðu og var, þegar tíma mínum lauk, að fjalla um umsögn sem kom frá prestum innflytjenda og flóttafólks. Þar var ég að fjalla um eða lesa upp það sem þeir nefndu, að það væri mikilvægt að hlúa að þessum hópi ef réttur hans væri skertur. Þá langar mig að fá að hefja lesturinn á nýjan leik:

„[Það] myndi fylgja ýmis beinn og óbeinn kostnaður við að bregðast við. Það er fyrirsjáanlegt að niðurfelling grunnþjónustu þvingar fólk í erfiða stöðu sem aftur skapar álag á önnur félagsleg kerfi eins og til dæmis sveitarfélög og ýmis hjálparsamtök, þangað sem fólk leitar í neyð. Það er reynsla okkar í samskiptum við þann hóp fólks sem hingað er kominn í leit að alþjóðlegri vernd, að þetta fólk á sér þá ósk heitasta að fá tækifæri til að framfleyta sér og að verða virkir þegnar í samfélaginu. Margvíslegar ástæður geta valdið því að fólk yfirgefi ekki landið sjálfviljugt eftir að endanleg synjun liggur fyrir í máli þeirra, sem dæmi eru einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd á Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi og er synjað um vernd hér á þeim forsendum, en telja sig ekki örugg í þeim ríkjum. Við viljum einnig ítreka afstöðu okkar sem fram kom í fyrri umsögn um þetta frumvarp að í þeim tilfellum þar sem fólk hefur fengið alþjóðlega vernd í ofangreindum löndum er um að ræða afar takmarkaða vernd.“

Frú forseti. Mér finnst þessi nálgun prestanna ramma svo vel inn þá umgjörð sem mér finnst að eigi að vera um þennan málaflokk, að við séum ekki að senda fólk út í óvissuna þar sem fyrirséð er að fólk lendi hreinlega á götunni sem getur í raun og veru haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér. Við þurfum alltaf að hafa í huga það sem börnum er fyrir bestu. Það er skylda okkar og er það sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að við skulum gera. Það er það sem við höfum undirgengist og verðum að fara eftir. Við skulum ekki gleyma því að útlendingar, þar með taldir flóttamenn, eru bara fólk af holdi og blóði, rétt eins og við hin, fólk sem oft og tíðum er að flýja hörmulegar aðstæður. Við erum að tala um börn sem hafa þurft að þola hörmungar stríðsátaka eða annarra þeirra aðstæðna sem við hér uppi á Íslandi skiljum ekki og getum alls ekki sett okkur í þeirra spor. Ef við værum í þeim sporum að þurfa að flýja land þá teldum við eðlilegt að við ættum möguleika á að fara þangað sem öryggi er að finna. Ákveðnir stjórnarliðar hafa hér í þingsal lýst því að þeir muni kalla frumvarpið til nefndar á milli 2. og 3. umr. og gefið í skyn að einhverjar breytingar kunni að verða á því án þess að tilgreina í hverju þær gætu falist. Mér þykir vont að ekki fáist einhver botn í þær hugmyndir sem verið er að ræða innan stjórnarliða. Það myndi vissulega geta hjálpað þeirri umræðu sem hér er að eiga sér stað. Vonandi verða þessar breytingar til bóta og munu taka tillit til þeirra umsagna sem hafa verið lagðar fram um þetta mjög svo umdeilda frumvarp. Fólk á flótta á það skilið frá okkur að við sinnum þessum málaflokki af virðingu en ekki harðneskju.

Mig langar, frú forseti, í lokin, af því að ég á nú einhvern tíma eftir, að fara aðeins yfir það sem Píratar voru að tjá sig um fyrir jólin. Þeir höfðu áhyggjur af því að þetta frumvarp stæðist ekki stjórnarskrá og óskuðu eftir áliti þar að lútandi. Þeir byggðu þetta á umsögn frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands ef mig misminnir ekki. Þegar maður horfir á þessa umsögn þá verð ég bara að segja að ég held að það hefði verið rétt ef á Pírata hefði verið hlustað fyrir jól. Þessi umsögn er kannski bara staðfesting á því og það eru efasemdir um að þetta hreinlega geti staðist stjórnarskrána.

Mig langaði kannski, virðulegur forseti, af því að ég hef smátíma, að lesa hérna upp úr þessari umsögn þar sem þetta kemur fram. Í fyrsta lagi kemur fram í kafla 4 í almennum athugasemdum með frumvarpinu:

„Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Hvorki virðist vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í athugasemdunum. Verður að telja þetta afar óheppilegt. Efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Til dæmis: brottfall þjónustu (6. gr.) varðar 1. mgr. 76. gr. stjskr. og 65. gr. stjskr., breyttar reglur um endursendingar varða 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE, sbr. ítarlega dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins, sérákvæði um börn varða 3. mgr. 76. gr. stjskr., framkvæmd ákvarðana varðar 71. stjskr. og 8. gr. MSE og eftir atvikum 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE og ýmis útfærsluatriði á málsmeðferð kunna að varða 70. gr. stjskr. og 6. og 13. gr. MSE hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Óhjákvæmilegt er að löggjafinn taki skýra afstöðu, að undangengnu efnislegu mati, til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt.“

Þegar ég les þetta, virðulegur forseti, þá nægir það mér í sjálfu sér, fyrir utan allt sem kemur fram í mörgum þeirra umsagna sem fyrir liggja, til að vilja og hvetja til þess að þetta mál verði skoðað frekar. Þegar Mannréttindastofnun Háskóla Íslands vekur athygli á hugsanlegum stjórnarskrárbrotum, stjórnarskrárvörðum réttindum sem verið er að taka af fólki, þá finnst mér bara eðlilegt og sanngjarnt og réttlátt að við hlustum. Það hafa farið í gegnum þingið ýmis mál í gegnum tíðina sem þingið hefur þurft að kalla til baka vegna klúðurs og fúsks.

Eins og ég sagði í ræðu minni ættum við alltaf að geta unnið að lagasetningu í sem mestri sátt. Því er greinilega ekki fyrir að fara hvað varðar þessa lagasetningu. Við erum að sjá mýmargar umsagnir, allar fyrir utan þær umsagnir sem tengjast ráðuneytinu sjálfu, tala gegn þessu frumvarpi. Ég vil bara hvetja til þess að á það sé hlustað. Ég sé ekki að það eigi neitt að stöðva þessa umræðu og taka þetta aftur inn í nefnd í 2. umr. Vonandi munu þeir stjórnarliðar sem hafa talað um að breytinga sé að vænta á þessu frumvarpi standa við þau orð.