Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir góðar ræður um þetta mál. Ég veit að hv. þingmaður kemur úr sveitarstjórn þess sveitarfélags sem hefur kannski tekið einna mestu byrðina, alla vega hlutfallslega, þegar kemur að því að taka á móti og sinna hælisleitendum. Ég tel að það sýni ótrúlega mannúð hjá Reykjanesbæ að hafa gert það í gegnum árin og takast líka á við þann sívaxandi hóp sem því miður kom vegna Úkraínu og svo vegna Venesúela á síðasta ári.

En mig langar að ræða aðeins meira við hv. þingmann um þetta, að vísa fólki á götuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann, hafandi komið úr því að stjórna í sveitarfélögum: Hvernig munu sveitarfélögin taka því þegar fólki er vísað út á götuna, fólki sem hefur enga möguleika til að komast til síns upprunalands, og það er allt í einu komið á götuna í sveitarfélaginu, undir brýrnar eins og Danir orða það? Lendir það ekki bara algerlega á sveitarfélögunum þá að taka á móti því fólki? Mun það ekki virkilega valda erfiðleikum fyrir sveitarfélög sem þegar eiga í fjárhagserfiðleikum við að sinna þeim íbúum sem eru þar nú þegar? Er ekki bara verið að ýta vandamálinu frá dómsmálaráðuneytinu yfir á sveitarfélögin?