Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:23]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég byrjaði að fara yfir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í síðustu ræðu og var aðeins að segja frá sögu hans en mér var bent á að ég hefði ekki alveg farið rétt með mál. Sáttmálinn sjálfur varð að veruleika árið 1989 þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti hann. Þessi samningur er útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims vegna þess að einungis eitt ríki í heiminum stendur fyrir utan hann eins og er; eitt ríki, Bandaríkin. Athyglisvert. Sáttmálinn var fullgiltur á Íslandi í nóvember 1992 en það var hins vegar ekki fyrr en í febrúar 2013 sem hann var lögfestur og þannig öðlaðist hann sömu lagalegu stöðu og önnur íslensk löggjöf. Það er því ekki hægt að segja að þetta sé bara einhver samningur úti í bæ. Þetta eru íslensk lög sem þarf að fylgja.

Ég ætla að byrja á því að fara í gegnum fyrstu greinar barnasáttmálans og fara síðan í gegnum þær greinar sem tengjast því frumvarpi sem hér er verið að ræða. Í 1. gr. sáttmálans segir, með leyfi forseta:

„Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.“

Þess skal getið að á Íslandi eru það 18 ár eins og í þessum samningi sem þýðir það að þeir einstaklingar sem eru á flótta og eru undir 18 ára aldri eru skilgreindir sem börn á flótta.

Í 1. mgr. 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.“

Frú forseti. Hér kemur alveg skýrt fram að aðildarríkin skulu virða og tryggja réttindin, líka þegar þú ert frá öðru landi en því landi sem hér á við.

2. mgr. 2. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

Þetta er mjög mikilvæg grein, sér í lagi þegar horft er á c-lið 8. gr. þess frumvarp sem við erum að horfa á núna þar sem ekki er tekið tillit til þess ef foreldri eða fjölskyldumeðlimur gerir eitthvað fyrir hönd barnsins, því að þá er barninu refsað fyrir það. Það má ekki samkvæmt 2. mgr. 2. gr. og það er mikilvægt að við látum ekki fara frá okkur frumvarp sem brýtur í bága við þessa grundvallarreglu barnasáttmálans og laga um börn.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum enn og aftur og óska því eftir að verða bætt á mælendaskrá svo að ég geti haldið áfram að ræða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, enda margt í honum sem tengist þessu.