Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er búinn að vera að fara hérna yfir umsögn Íslandsdeildar Amnesty international sem er ansi viðamikil og bara punktarnir hérna eru í raun nægilega margir fyrir nokkrar ræður þannig að ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svona bara í upphafi ræðu því ég veit að mér endist ekki ræðan til að klára þetta.

Ég var komin að umfjöllun Íslandsdeildar Amnesty international um 6. gr., heimildina til að skerða og fella niður grunnþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Það er líka verið að færa það hvenær endanleg ákvörðun er, sem eru viðbótaráhrif hvað þetta varðar þannig að það er í rauninni enn meiri stytting þarna miðað við núverandi kerfi. En þetta eru grundvallarmannréttindi og snúa að grunnþörfum fyrir fæði, húsnæði og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það er því mikilvægt að tryggja að einstaklingar fái notið mannréttinda sinna að fullu þegar fyrir liggur framkvæmdarhæf ákvörðun í málum þeirra, sérstaklega í ljósi þess að slík ákvörðun kemur oft ekki til framkvæmda svo mánuðum skiptir. Stjórnvöld geta einfaldlega ekki klárað ákvörðun sína ef viðkomandi aðili er í þannig ástandi í rauninni að geta ekki yfirgefið landið sjálfur, sem á oft við um fólk sem er í neyð. Hérna er einfaldlega verið að setja kerfið upp þannig að það sé einhvers konar fælingarmáttur í því en það hefur ekki sýnt sig að það virki neitt. Þetta er meira að segja, eins og hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna, meiri skerðing á þjónustu en í þeim samanburðarlöndum sem talað er um í frumvarpinu, þ.e. öðrum Norðurlöndum. Við eigum að vera einhvern veginn að herma eftir þeim en samt er verið að ganga lengra. Þetta er mjög áhugaverð grein í rauninni þegar allt kemur til alls.

Það sem er áhugavert við hana líka eru þessar undanþágur sem eru frá því að þjónustan falli niður en síðan líka svona upptalning á atriðum sem gerir það að verkum að fólk sé ekki samvinnuþýtt, sem getur síðan leitt til skerðingar á þjónustu. Hvort það sé þrátt fyrir undanþáguna er bara mjög óljóst, og eins og ég fór aðeins yfir í fundarstjórn áðan þá erum við með lög og reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það á við í sérstökum tilfellum erlendra ríkisborgara að þá er meiri aðstoð í rauninni við útlending í neyð heldur en hælisleitanda. Hælisleitandi fær 10.400 kr. en útlendingur í neyð fær lágmarksframfærslu sveitarfélags og greidda húsaleigu líka. Það er dálítið áhugavert í rauninni að það sé verið að setja þetta upp í kerfinu. Kannski er það bara jákvætt, hver veit? Mér finnst það ólíklegt, og mjög ólíklegt að það sé ætlun dómsmálaráðherra að fólki sé beint inn í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem er þarna á ferð. Það er alveg nauðsynlegt að fá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra til að koma og útskýra aðeins hvernig hann sér þetta enda á sínu málefnasviði fyrir fólk sem er að missa rétt sinn.

Hérna erum við að tala um að fólk sem bíður endursendingar nýtur þá hvorki réttar til almennrar félagsþjónustu né atvinnuréttar. Kannski finnst einhverjum það bara fullkomlega eðlilegt. En staðan er samt sú að þetta er ekki annaðhvort bara fólk sem hefur rétt á alþjóðlegri vernd eða svo einhverjir sem eru bara að svindla, það er þarna fólk og alveg tvímælalaust meiri hlutinn af þeim sem er synjað er í rauninni fólk sem er hérna af mjög gildum ástæðum en uppfyllir kannski ekki öll þessi skilyrði sem við erum með um að komast í gegnum nálaraugað sem íslensk stjórnvöld virðast vera með og einbeita sér rosalega mikið að því að enginn geti hitt í gegnum. Þegar allt kemur til alls er þetta frumvarp birtingarmynd þess sem við höfum séð stjórnvöld reyna að gera á undanförnum árum, að koma í veg fyrir að fólk flokkist sem einhverjir sem eiga rétt á vernd frekar en ekki. Það er mjög nauðsynlegt að við fáum að vita í rauninni hvernig þessi grein hefur áhrif á málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra.