Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Varðandi þessar undanþágur á skerðingu réttinda, sem ég var að tala um hérna áðan, þeirra sem eru alvarlega veikir og fatlaðir t.d. með langvarandi stuðningsþarfir, þá segir Íslandsdeild Amnesty International, með leyfi forseta:

„Íslandsdeild hefur gert alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu […] Þá hefur Útlendingastofnun ítrekað vanrækt skyldu sína um að rannsaka hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hefur tekið ákvarðanir í málum áður en mikilvæg heilbrigðisgögn hafa borist stofnuninni. Þrátt fyrir umrædda undantekningu á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu er líklega í ljósi fyrri reynslu á mati Útlendingastofnunar að breytingin mun samt sem áður bitna harðast á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

Þetta er svolítið kjarninn í því sem við erum búin að vera að vinna með í þessu máli, að lögin eru hérna á einn hátt en einhvern veginn er framkvæmdin langt frá því að vera nægjanlega góð. Þetta er einmitt dæmi frá Íslandsdeild Amnesty International og þau eru þó nokkur. Það að veita stofnuninni einhvern veginn aftur gildismatsákvæði, hvort þau geti í rauninni sagt bara: Nei, þetta er ekki einhver í sérstaklega viðkvæmri stöðu, okkur finnst það bara ekki. Sagan einfaldlega dæmir það, við eigum ekki að treysta Útlendingastofnun og ráðherra fyrir svona ákvæðum. Amnesty International gerir það ekki heldur. Þetta er einnig í 7. gr., þar er sem sagt endurtekin umsókn háð því að sýnilega auknar líkur séu á að umsókn verði samþykkt. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Viðbótarkrafa um að gögn sýnilega auki líkurnar á vernd er einkum til þess fallin að skapa útilokunarástæður fyrir stjórnvöld til að réttlæta synjun á fleiri umsóknum umsækjenda um alþjóðlega vernd um endurskoðun á máli þeirra og eftir atvikum til að vísa þessum umsóknum frá.“

Þetta eru t.d. mun strangari skilyrði en í sænsku löggjöfinni. Samt var einhvern veginn markmiðið með þessu frumvarpi að færa okkur nær og í sömu framkvæmd og á hinum Norðurlöndunum. En þetta gengur lengra. Þetta er einhvern veginn eins og það sé verið að stíga ákveðin hænufet. Danmörk fór langt og Noregur fór eitthvað og Svíþjóð fór eitthvað aðeins líka og nú erum við að stíga skrefinu lengra. Þá geta þau kannski sagt: Heyrðu, Ísland gerði þetta og þá ætlum við að gera þetta líka og stíga kannski aðeins lengra o.s.frv. Það er verið að klóra í einmitt þessi réttindi sem eru svo mikilvæg og sagan frá síðustu öld segir okkur að er alveg gríðarlega nauðsynlegt að vernda því að annars gerist það sama og í rauninni bara eftir fyrri heimsstyrjöldina, og hvað þá seinni heimsstyrjöldina, sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna var einmitt gerður til þess að koma í veg fyrir. Hérna er verið að krafsa í þau réttindi og reyna að minnka þau smám saman.

Þetta er röng nálgun á þennan vanda, að það séu núna miklu fleiri flóttamenn, heldur en að við ættum að fara. Við ættum að fara aðrar leiðir en þessa, ekki gefa stjórnvöldum, valdhöfunum, fleiri afsakanir til að hafna fólki. Við verðum að gera meiri kröfur á stjórnvöld að þau sinni skyldum sínum samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og sinni skyldum sínum gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta eru rosalega mikilvægir samningar og sáttmálar. Við höfum alveg séð heiminn án þeirra. Það er ástæða fyrir þessum samningum og sáttmálum. Það að setja mannréttindin í rauninni svona sterka umgjörð, það er ástæða fyrir því.

Ég bið virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá, takk, af því að næst ætla ég að fjalla um 24. gr.