Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum að ræða fyrirhugaða þjónustusviptingu skv. 6. gr. frumvarpsins. Líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson minntist á áðan þá eru í þeim hópi einstaklinga sem yrðu fyrir þessari þjónustusviptingu, ef þetta verður að lögum, konur sem eru fórnarlömb mansals. Þær tala um að þær geti ekki farið aftur heim vegna þess að þar hafi þær verið seldar mansali. Reyndar á það sem þær segja sér stoð í opinberum skýrslum um stöðu mansalsfórnarlamba um að það eru bara mjög miklar líkur á því að þær lendi aftur í mansali. Fyrrverandi mansalsfórnarlömb eru í mikilli hættu á að lenda í mansali að nýju þar sem þær hafa gjarnan verið sviptar tengslaneti. Gjarnan eru glæpasamtök sem vita hvar veiku blettirnir eru, hvar börnin þeirra eiga heima, foreldrar þeirra og annað slíkt. Það hefur ýmislegt gengið á fyrir utan það. Þær hafa orðið fyrir ofbeldi sem gerir það að verkum að þær eru andlega og jafnvel líkamlega ekki í stakk búnar til þess að verja sig sjálfar fyrir slíku ofbeldi og slíkri misnotkun.

Í þessu samhengi langaði mig að nefna svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn til skriflegs svars sem ég beindi til hans nýlega. Ég spurði hversu mörg dvalarleyfi hafi verið veitt á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga síðastliðin fimm ár. Þessar greinar, 75. og 76. gr. útlendingalaganna, fjalla um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals og fyrir fórnarlamb mansals. Hugsanlegt fórnarlamb mansals er þegar hafin er lögreglurannsókn á mansali. Fólk á ekki möguleika á þessu dvalarleyfi með því einu að segjast hugsanlega vera fórnarlamb mansals. Það þarf að vera lögreglurannsókn í gangi. Tilgangur dvalarleyfisins er að heimila vitninu að vera á landinu á meðan lögregla er að rannsaka málið. Þegar búið er að rannsaka málið missir viðkomandi dvalarleyfið. Þetta er tímabundið dvalarleyfi til mjög skamms tíma sem veitir ekki rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, sama hversu oft það er endurnýjað. Dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals er veitt fórnarlambi mansals eftir að búið er að skera úr um að um mansal hafi verið að ræða, sem gerist afar sjaldan, ákaflega sjaldan, alveg bara teljandi á fingrum annarrar handar.

Það skýtur því svolítið skökku við — er það ekki? — að heyra af því að hér séu fórnarlömb mansals sem ekki eru með dvalarleyfi og á að flytja úr landi. Það eru nefnilega aðrar rangar forsendur í þessu frumvarpi að baki þessu ákvæði og reyndar öðrum ákvæðum, sérstaklega 7. gr. sem ég mun útskýra hér síðar. Það er sú forsenda að stjórnvöld geti ekki tekið ranga ákvörðun, að Útlendingastofnun geti ekki haft rangt fyrir sér og ef hún hefur rangt fyrir sér þá kemur kærunefndin til bjargar. Hún getur ekki haft rangt fyrir sér. Hún getur ekki komist að rangri niðurstöðu. Það er í rauninni gengið út frá því með þessu frumvarpi. Réttindi fólks til að fá niðurstöðu kærunefndar útlendingamála endurskoðaða eru skert og það er svipt réttinum til aðstoðar í kjölfar niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. Það er ekki bara skertur réttur, það er bara: Út á götu, bless, bless, þú átt að fara heim.

Ég ætla að fá að lesa upp svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni. Það var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafa tvö dvalarleyfi verið veitt á grundvelli 75. og 76. gr. laga um útlendinga síðastliðin fimm ár; eitt á grundvelli 75. gr. árið 2019 og annað á grundvelli 76. gr. árið 2022.

Þess ber að geta að flest þeirra mála þar sem komið hefur til álita hvort veita eigi dvalarleyfi á fyrrnefndum grundvelli eru í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd. Áður en komið getur til skoðunar hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli þessara ákvæða ber Útlendingastofnun fyrst að skera úr um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 37. eða 39. gr. laganna fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar eða 74. gr. sömu laga fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“

Ég hef ekki tíma til að lesa restina. En þau halda því sem sagt fram að þeir einstaklingar sem koma hérna sem fórnarlömb mansals — það er sjaldgæft að þau fái dvalarleyfi sem fórnarlömb mansals en þeim er veitt alþjóðleg vernd. Þetta er ekki mín reynsla af þessum málaflokki. Ég hef aldrei verið með skjólstæðing sem fékk alþjóðlega vernd hér á landi vegna þess að viðkomandi var fórnarlamb mansals þó að það hafi oft komið upp (Forseti hringir.) að svo sé.

Ég ætla að fá að halda aðeins áfram með þetta í næstu ræðu minni. Ég óska eftir því við forseta að fá að vera sett aftur á mælendaskrá.