153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þar sem frá var horfið. Ég var að fjalla hér um anga af því sem fram kemur í skýrslu Rauða krossins á Íslandi um fólk í umborinni dvöl, þ.e. einstaklinga sem hafa lagt á flótta, komist til Íslands, sótt hér um alþjóðlega vernd, fengið endanlega synjun á Íslandi en geta ekki snúið til baka til heimalandsins af ýmsum ástæðum, vilja það mögulega ekki sjálf. Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir nefndi dæmi af viðmælanda Rauða krossins sem var þolandi mansals í heimalandi og hefur einfaldlega engan áhuga á að fara aftur til þess lands og eiga á hættu að lenda í sama vítahring misnotkunar. Þau vilja ekki fara á eigin vegum en ríkið getur ekki þvingað þau úr landi með hjálp stoðdeildar ríkislögreglustjóra vegna þess t.d. að ekki er í gildi gagnkvæmur samningur á milli Íslands og viðkomandi ríkis og þarna situr fólk bara fast árum saman. Rauði krossinn tók saman að frá árinu 2017 væri um að ræða 64 einstaklinga í þessari stöðu og af þeim 15 sem þau tóku viðtal við þá hafi sum hver verið hér á landi í allt að fimm ár, einhvern veginn í einskismannslandi. Anginn sem ég var að ræða hér rétt áðan snýr að börnum þessa fólks þegar þau fæðast hér á landi vegna þess að þau eru í óljósri stöðu hvað varðar ríkisfang. Þau eru ríkisfangslaus í raun. Íslenska ríkið neitar að taka ábyrgð á þeim, lagaumhverfið bara leyfir það ekki, mögulega, og heimalandið er ekki til viðræðna.

En það sem ég var að tala um hér áðan voru þessir stóru og góðu mannréttindasamningar sem náðist saman um stuttu eftir seinni heimsstyrjöldina þegar upp úr ösku þeirra hörmunga risu nokkrir Fönixar, nokkrir alþjóðasamningar sem gengu svo langt að aldrei hefur náðst að gera betur. Flóttamannasamningurinn frá 1951 er eitt dæmi, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 er annað og svo samningur í framhaldinu af því um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Síðan eru aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland þarf að hafa í huga í þessu máli, t.d. samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálinn, um þann rétt barns að vera ekki ríkisfangslaust. Svo er Evrópusamningur um ríkisborgararétt og auðvitað mannréttindasáttmáli Evrópu. Þetta er meðal mestu grundvallarréttinda sem hver einstaklingur getur haft.

Það sem er svo furðulegt er að ekki hafi verið — ja, það er ekkert furðulegt, þetta er náttúrlega allt með vilja gert. Kerfið vill ekki gera þessi börn að íslenskum ríkisborgurum vegna þess að í gegnum það gætu mögulega foreldrar þeirra öðlast einhver réttindi. Það virðist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki vilja að gerist og stjórnarliðarnir í allsherjar- og menntamálanefnd ekki heldur.

En hér erum við aftur komin með dæmi um það hvernig börn fá kannski ekki sjálfstæða úrlausn sinna mála hjá íslenska ríkinu þótt barnasáttmálinn kveði einmitt á um rétt þeirra til þess. Þarna er búið að byggja inn í kerfið algjöran ómöguleika á því að barn fólks í þessari stöðu, sem fæðist á Íslandi, geti öðlast íslenskt ríkisfang vegna þess að ríkið hefur einhverja skoðun á foreldri viðkomandi. Það er verið að refsa barninu fyrir stöðu foreldrisins. Þetta væri nógu slæmt ef ekki væri fyrir þá staðreynd að (Forseti hringir.) það frumvarp sem við fjöllum um hér kemur til með að fjölga til muna í þessum hópi. (Forseti hringir.) Það er ekki falleg framtíðarsýn.