Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég held áfram að ræða 6. gr. þessa frumvarps. Þar sem ég hætti síðast var ég að tala um dæmi um einstaklinga sem falla ekki undir undanþágurnar í þessu ákvæði, um þjónustusviptingu að 30 dögum liðnum eftir lokaniðurstöðu, og er að taka dæmi sem eru raunveruleg um einstaklinga sem nú þegar eru á Íslandi, búnir að vera í langan tíma, hafa fengið lokasynjun og eru með þessa frábæru þjónustu sem kveðið er á um í lögum um útlendinga; herbergi einhvers staðar með öðru fólki, algjör lágmarksheilbrigðisþjónusta, tönnin dregin úr ef þú færð tannpínu, allt þetta. Dæmið sem ég var að taka voru konur sem hafa verið fórnarlömb mansals í heimaríkinu. Þær falla ekki undir þessar undanþágur, þessar undantekningar, í frumvarpinu eins og það er lagt upp — ég veit hvaða svör kæmu við því frá þeim sem slást um að verja þetta frumvarp, þeim fáu sem þó hafa lesið það til þrautar en halda af einhverjum ástæðum enn þá að þetta sé verjandi. Í síðari lið, eða sem sagt í b-lið þessarar 6. gr. í frumvarpinu, þá kemur svona undanþága og þar er líka kjarninn í þessu ákvæði, hann endurspeglast þar. Undanþágan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Heimilt er að fresta niðurfellingu réttinda skv. 8. mgr. hjá öðrum en ríkisborgurum EES- og EFTA-ríkja og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Við mat á því hvort fresta skuli niðurfellingu réttinda skal m.a. líta til þess hvort útlendingi hafi ekki tekist að fara sjálfviljugur af landi brott innan tilgreinds frests vegna aðstæðna sem ekki eru á ábyrgð hans, svo sem vegna ómöguleika við að afla ferðaskilríkja, fötlunar hans eða vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Jafnframt er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í þeim tilvikum þegar fallist hefur verið á frestun réttaráhrifa skv. 6. mgr. 104. gr. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar samkvæmt þessari málsgrein.“

Höldum áfram með dæmið um konuna sem var fórnarlamb mansals í heimaríkinu. Við erum með úrskurði kærunefndar útlendingamála þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að kona sem, og það er ekki umdeilt, hafi verið fórnarlamb mansals, ber þess jafnvel líkamleg merki að hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi — og það er oft ekki. Það er hægt að beita fólk alveg gríðarlega alvarlegu ofbeldi án þess að það beri varanleg, líkamleg merki þess. En gefum okkur það. Kærunefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu og tekur þar undir með Útlendingastofnun og segir: Já, þú getur samt farið heim og bara leitað þér einhverrar aðstoðar þar. Farðu nú bara til lögreglunnar í Nígeríu. Hún mun hjálpa þér. En konan þorir ekki að fara aftur. Segjum bara að þetta sé Nígería, tökum það sem dæmi. Nígería er ágætisdæmi vegna þess að Nígería er eitt þeirra ríkja sem neitar að taka á móti sínum borgurum ef þeir vilja ekki koma sjálfir, neitar að taka við borgurum sem eru fluttir nauðungarflutningum og reyndar geta líka verið vandkvæði við endurnýjun skilríkja einstaklinga frá Nígeríu. Hugsum okkur þessa manneskju í þessari stöðu. Hverjar eru líkurnar á því að hún fái þjónustu, að hún lendi ekki á götunni? Það er ekkert í þessu ákvæði sem veitir henni vernd nema það að hún fari einhvern veginn að aðstoða stjórnvöld, og það með talsverðri fyrirhöfn, við að reyna að koma henni aftur til landsins sem hún vill ekki fara til, sem hún telur ekki öruggt fyrir sig að fara til. Hvað á þessi kona að gera? Hvaða kosti á þessi kona í lífinu í þessari stöðu yfir höfuð? Og svo á að svipta hana réttinum til þess að óska eftir endurupptöku að auki með þessu frumvarpi.

Ég óska eftir því, forseti, að vera sett aftur á mælendaskrá.