Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Hér rétt fyrir vaktaskipti á forsetastól var ég að ljúka yfirferð yfir skýrslu Rauða krossins á Íslandi um einstaklinga í umborinni dvöl, þ.e. þá einstaklinga sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki er hægt að flytja úr landi af einhverjum ástæðum, fólk sem Rauði krossinn bendir á að búi við ómannúðlegar aðstæður sem nauðsynlegt sé að vekja athygli á. Það gerði Rauði krossinn með því að ræða við 15 manns í þessari stöðu, skrifa þessa skýrslu, afhenda dómsmálaráðuneytinu hana 3. nóvember síðastliðinn og senda afrit til þingsins sem skráð var í dagbók þingsins 30. nóvember. Þetta eru þær upplýsingar sem allsherjar- og menntamálanefnd hafði í höndunum þegar hún var að afgreiða málið til 2. umr.

Tillögur til úrbóta eru fjórar og ég fór yfir þrjár fyrstu í síðustu ræðu minni. Til upprifjunar voru þær í fyrsta lagi að búa þurfi til lagaramma sem tekur á aðstæðum fólks í þessari stöðu, í rauninni bara að viðurkenna tilvist þeirra, það er nú ekkert endilega mikið flóknara en það. Í öðru lagi að það þurfi að einfalda aðgengi að bráðabirgðadvalarleyfi, sérstaklega í ljósi þess að sumir í þessum hópi hafa dvalið hérna fjögur, fimm ár, sem á almennilegu dvalarleyfi hefði þýtt að þau væru komin með ótímabundið dvalarleyfi. Í þriðja lagi leggur Rauði krossinn til að það þurfi að einfalda aðgengi að bráðabirgðaatvinnuleyfi til þess að fólk geti bara verið fjárhagslega sjálfstætt og þar með stuðlað að bættum lífsgæðum sjálfs sín. Þetta er í samræmi við það sem gert er t.d. í Svíþjóð þar sem búin hafa verið til sérstök bráðbirgðaatvinnuleyfi fyrir fólk í þessari stöðu.

En fjórða og síðasta atriðið sem Rauði krossinn leggur til er að skoða sérstaklega aðstæður barna sem fæðast hér á landi foreldrum sem eru í þeirri stöðu að vera í umborinni dvöl, og þá sérstaklega ríkisfang þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með skýrslunni hvetur RKÍ íslensk yfirvöld, sem er í forystu varðandi réttindi barna og sem ríki sem er aðili samningum Sameinuðu þjóðanna, annars vegar um stöðu ríkisfangslausra frá árinu 1954 og samningi um að draga úr fjölda ríkisfangslausra frá árinu 1961, til að leggja mat á lagalegan rétt barna sem fæðst hafa hér á landi.“

Það er nú ekkert djúsí framsetning miðað við það sem undir liggur, hérna er bara bent á þann tvískinnung sem felst í því að við séum ríki sem segist standa framarlega í flestum mannréttindum, sem er með ráðherra í ríkisstjórn sem kennir sig við barnamál, sem leggur virkilega áherslu á það í framsetningu á störfum sínum að hann beri hag barna fyrir brjósti. En hér erum við með hóp sem eignast ríkisfangslaus börn vegna reglna sem íslenska ríkið setur. Það stangast bara á við fjöldann allan af mannréttindaskuldbindingum, þar á meðal barnasáttmálann, og er alveg ótrúlegt að sé leyft að líðast. Það er vegna þessarar ótrúlegu stöðu og vegna þess meinta metnaðar sem hæstv. barnamálaráðherra hefur í þessum málaflokki sem við höfum lagt ríka áherslu á að ráðherrann komi hingað og sé viðstaddur umræðuna til að hann geti gert grein fyrir afstöðu sinni til þessa hóps, þessa örlitla hóps barna sem íslenska ríkið gerir ríkisfangslaus frá fæðingu, en hóps sem allar líkur eru á að muni stækka á næstu árum ef þetta frumvarp verður að lögum. Það getur ekki verið að ríkisstjórn sem vill hafa réttindi barna í hávegum geti á sama tíma staðið að baki svona lagabreytingum. .