Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum enn að ræða 6. gr. frumvarpsins sem, eins og ég nefndi í ræðu minni hérna áðan, er ekki uppáhaldsgreinin mín í þessu frumvarpi og mér þykir reyndar fremur sorgleg og leiðinleg umræða um þetta ákvæði, en mér þykir ástæða til að vekja athygli á umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði þar sem enginn aðili á Íslandi hefur jafn mikla reynslu af aðstoð við flóttafólk og talar af jafn mikilli fagmennsku í þessum málaflokki.

Ég ætla rétt að fara yfir það sem ég var að tala um hérna rétt áðan, samhengisins vegna. Það sem ég var að fara yfir var umfjöllun Rauða krossins um það að jafnvel í núgildandi lögum, þar sem gerð er krafa á stjórnvöld að meta hvort fólk sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, jafnvel með þá kröfu í lögunum, þá vanræki Útlendingastofnun iðulega skyldu sína að meta hvort fólk sé með langvarandi stuðningsþarfir, sé andlega eða líkamlega ekki í stakk búið til að kljást við kerfið. Kærunefnd útlendingamála telur það ekki sitt hlutverk að endurskoða mat Útlendingastofnunar, þannig að þegar ekkert mat fer fram og síðan engin endurskoðun á því, þá fer ekkert mat fram.

Þetta er í núgildandi lögum sem gera ráð fyrir þessu mati sem aldrei fer fram.

Ákvæði sem við erum að tala um, 6. gr. frumvarpsins sem snýst um sviptingu þjónustu með ákveðnum undantekningum, gerir ráð fyrir því að undanþegnir þessari þjónustusviptingu séu einmitt einstaklingar með alvarlega sjúkdóma eða langvarandi stuðningsþarfir. En hvernig förum við að því að meta það hvort einstaklingar séu með alvarlega sjúkdóma eða langvarandi stuðningsþarfir þegar það mat fer aldrei fram? Í ofanálag þá er samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið, meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, gerð tillaga um að það verði sett í hendurnar á lögreglunni að meta hvort ástæða sé til að undanþiggja fólk frá þessari þjónustustýringu. Þegar Útlendingastofnun hefur ekki einu sinni aflað gagna og upplýsinga um andlegt og líkamlegt heilsufar fólks, þá veit ég ekki hvernig lögreglan á að hafa þær.

Ég ætla aðeins að lesa aftur úr umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir nefndar undantekningar á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu telur Rauði krossinn í ljósi framangreinds að leiða megi líkur að því að breytingin muni samt sem áður koma harðast niður á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu (s.s. fötluðu fólki, fórnarlömbum mansals, pyndinga og annars alvarlegs ofbeldis), enda hefur Útlendingastofnun túlkað skilgreininguna á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu verulega þröngt. Að sama skapi eru möguleikar þeirra til að yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu endanlegrar ákvörðunar mun minni en umsækjenda í sterkari stöðu. Einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafa þar að auki aukna þörf á tryggu húsnæði og heilbrigðisþjónustu. Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Ég ætla aðeins að staldra þarna við. Ég spurði talsvert út í þetta við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd, hvort metnar hefðu verið líklegar samfélagslegar afleiðingar af því að svipta fólk þessari þjónustu. Það er alveg ljóst af þeim svörum sem ég fékk að það hefur ekki verið gert. Það hefur ekkert verið gert til að kanna afleiðingarnar fyrir samfélagið. Eina svarið sem dómsmálaráðuneytið hafði við þeim spurningum mínum var: Fólkið á bara að fara.

Ég er að falla á tíma eina ferðina enn þannig að ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég mun halda örlítið áfram með umfjöllun um umsögn Rauða krossins í minni næstu ræðu en svo förum við að koma að einu mínu „uppáhaldsákvæði“ í þessu frumvarpi, 7. gr.

Ég óska eftir því við forseta að vera sett aftur á mælendaskrá.