Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er að reyna að ljúka umfjöllun minni um 6. gr. frumvarpsins sem fjallar um þjónustusviptingu að 30 dögum liðnum eftir lokaúrskurð á stjórnsýslustigi. Ég ákvað að endingu að gera grein fyrir umsögn Rauða krossins í þessu máli þar sem hún er nokkuð skorinorð. Rauði krossinn hefur langmesta reynslu af öllum af meðferð flóttamannamála á Íslandi. Með leyfi forseta:

„Það er vel þekkt, og ekki séríslenskt vandamál, að erfiðlega gangi að flytja umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því sem í raun hafa oft ekkert með umsækjendur sjálfa að gera en ákvæðið verður einnig að skoðast í samhengi við þá tillögu í frumvarpinu sem fram kemur í b-lið 8. gr. þar sem lagt er til að synja skuli um efnismeðferð ef umsækjandi hefur slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Í greinargerð við ákvæðið kemur fram að við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Þá geti ákvæðið einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það. Fyrir fram er ljóst að flutningur fólks til ríkja þar sem það hefur ekki formlegt leyfi til dvalar getur verið miklum erfiðleikum bundinn, ef ekki óframkvæmanlegur. Rauði krossinn telur eðlilegt að ábyrgð á brottflutningi fólks sem hefur fengið endanlega synjun og þar með ábyrgð ríkisins á velferð þeirra sem um ræðir á meðan þeir dvelja hér á landi sé ekki rofin með þeim hætti sem hér er lagt til. Er það mat Rauða krossins að í stað þessa ákvæðis væri nær að auðvelda fólki sem bíður endursendingar um lengri tíma að sjá sér sjálft farborða. Það er reynsla félagsins að flestir í hópi umsækjenda myndu frekar kjósa það en að vera á framfæri íslenska ríkisins. Rauði krossinn leggur því eindregið til að fallið verði frá þeirri breytingu sem kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins.“

Þarna tekur Rauði krossinn fram nokkuð sem ég hef reynt að benda á í umfjöllun um þetta frumvarp, sem er það að með öðrum ákvæðum frumvarpsins er ekki verið að gera það sem kemur fram í greinargerð og í máli frumvarpshöfunda að sé ætlunin með þessu frumvarpi, þ.e. að auka skilvirkni og straumlínulaga kerfið og annað, heldur er verið að búa til vandamál. Það er annars vegar verið að búa til vandamál sem ekki eru fyrir hendi í dag og hins vegar er verið að auka á þau vandamál sem ætti í rauninni að vera að leysa með þessu frumvarpi.

Líkt og Rauði krossinn bendir á í upphafi umsagnar sinnar þá er ekkert í þessu frumvarpi sem leysir vanda þessa fólks sem er hér í þessu tómarúmi og alveg ljóst að afstaða frumvarpshöfunda til þess hóps er einföld. Hún er sú að þau eiga bara að fara. En eins og við höfum farið yfir hér og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur farið yfir í löngu máli hérna í dag þá telur þessi hópur sér ekki fært að fara úr landi. Það má vera að stjórnvöld séu þeim ósammála. Það breytir því ekki að einstaklingarnir telja sér ekki fært að fara úr landi. Oft er það eitthvað sem varðar skilríki. Oft telur fólk sig í hættu í heimalandinu þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og það gerir það að verkum að fólk fer ekki þrátt fyrir það sé svipt þjónustu, enda er sú þjónusta sem er verið að svipta það gríðarlega lítil.

Það sem er síðan verið að gera með b-lið 8. gr. frumvarpsins, sem ég mun fjalla um síðar í þessari umræðu, er að það er verið að auka heimildir Útlendingastofnunar til þess að vísa fólki til landa sem ekki er hægt að flytja það til, sem stjórnvöld geta ekki flutt fólk nauðugt til. En það er, líkt og Rauði krossinn bendir hér á, sannarlega á ábyrgð ríkisins: Annars vegar, ef þau ætla að vísa fólki úr landi til einhvers tiltekins lands gegn vilja þess er það á ábyrgð ríkisins að framfylgja því og ekki hægt að segja að það að setja þetta fólk í enn meiri örbirgð leysi nokkurn vanda. Það gerir það alls ekki.

Þá er ég fallin á tíma eina ferðina enn. Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.