Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Já, Rauði krossinn á Íslandi fjallaði aðeins um þann þátt 6. gr. sem enginn gaumur virðist hafa verið gefinn að við vinnslu frumvarpsins og engin svör hafa fengist við þegar bæði frumvarpshöfundar og aðrir aðilar eru spurðir um hugsanlegar afleiðingar fyrir samfélagið af því að henda fólki á götuna, henda fólki á götuna sem er í örvæntingu og í erfiðri stöðu fyrir, svipta það öllum réttindum. En það var ekki bara Rauði krossinn sem gerði athugasemdir við t.d. þetta ákvæði frumvarpsins. Það gerðu einnig aðilar á borð við landlækni, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Læknafélag Íslands, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Mannréttindastofnun Íslands, presta innflytjenda, Samband íslenskra sveitarfélaga og Solaris o.fl. Þar sem það virðist sem sumir telji andstöðuna við þetta frumvarp vera róttæka skoðun og að það sé mikil skynsemi í þessu frumvarpi og þessum lögum þá ætla ég að leyfa mér að lesa upp úr umsögnum Læknafélags Íslands og landlæknis sem ég held að allir geti verið sammála um að séu aðilar sem okkur ber að taka mark á og ekki mikil róttækni þar á bæ heldur akkúrat almenn skynsemi og yfirveguð afstaða. Með leyfi forseta, les ég úr umsögn embættis landlæknis:

„Af frumvarpinu verður ráðið að þrátt fyrir undanþáguákvæði geti komið upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu. Slíkt er óásættanlegt. Þeir sem undir þetta falla geta, rétt eins og aðrir og e.t.v. enn frekar en aðrir, glímt við sjúkdóma og heilsufarsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við utan téðra tímamarka. Vart þarf að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, getur haft í för með sér ef ekki er brugðist við því sem upp kemur.

Embætti landlæknis telur að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eigi að vera undanskilin. Það að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi en í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 segir m.a. í 12. gr. um „... rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“. Fyrir utan að það er ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu getur það boðið heim hættu fyrir aðra ef t.d. einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn.

Embætti landlæknis leggur því til að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta verði talin upp í undantekningum í 6. gr.“

Ég ætla aðeins að gera hlé áður en ég fer í umsögn Læknafélagsins og benda á að það sem embætti landlæknis er að leggja þarna til er meira í samræmi við löggjöf og framkvæmd á hinum Norðurlöndunum en það frumvarp sem hér liggur fyrir. Frumvarpshöfundum og stuðningsmönnum þeirra er tíðrætt um að það sé verið að aðlaga okkar löggjöf og framkvæmd að Norðurlöndunum en það er rangt, það er ekki þannig í neinu Norðurlandanna að heilbrigðisþjónustan sé með öllu felld niður á neinum tímapunkti. Það er hvergi gert.

Í umsögn Læknafélags Íslands segir, með leyfi forseta:

„Vegna 6. gr. frumvarpsins, sem breytir 8. mgr. 33. gr. laganna, leggur LÍ þunga áherslu á að það takist innan 30 daga tímafrestsins að framfylgja ákvörðun svo ekki komi upp sú staða að þessi hópur njóti almennt ekki þeirra grunnmannréttinda sem heilbrigðisþjónusta telst vera. Vissulega er í ákvæðinu tekið fram að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Ákvæðið gerir ekki ráð fyrir að almenn heilbrigðisþjónusta falli þar undir. Að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi eins og áður segir eins og fram kemur í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest.“

Ég ætla þar að láta staðar numið í umfjöllun minni um 6. gr. frumvarpsins í bili og mun víkja mér að mínu „uppáhaldsákvæði“ í frumvarpinu, 7. gr., í næstu ræðu. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.