Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég bíð spenntur eftir næstu ræðu hv. þm. Arndísar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur en við verðum að bíða hérna í smátíma í viðbót, fólk verður bara að hita sér kaffibolla eða eitthvað á meðan.

Ég ætla að fara aðeins yfir umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands sem telur afar óheppilegt að hvorki sé vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu því að efni frumvarpsins varðar það með augljósum hætti, þ.e. mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd — bara með augljósum hætti. Samt finnst ráðuneytinu það bara engu máli skipta, það þurfi ekkert að gera greiningu á því hvort þetta brjóti í bága við stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála. Nei, nei, ekkert svoleiðis. En Mannréttindastofnun Háskóla Íslands segir: Með augljósum hætti.

„Til dæmis: brottfall þjónustu (6. gr.) varðar 1. mgr. 76. gr. stjskr. og 65. gr. stjskr., breyttar reglur um endursendingar varða 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE, […] sérákvæði um börn varða 3. mgr. 76. gr. stjskr., framkvæmd ákvarðana varða 71. stjskr. og 8. gr. MSE og eftir atvikum 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE og ýmis útfærsluatriði á málsmeðferð kunna að varða 70. gr. stjskr. og 6. og 13. gr. MSE hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.“

Algjört grundvallaratriði, eins og hefur verið fjallað um hérna þó nokkrum sinnum áður. Ég spurði ráðuneytið hvort umsækjendur sem hefði verið hafnað gætu ekki leitað réttar síns hjá íslensku dómskerfi. Jú, jú, ekkert mál, að sjálfsögðu, þau geta bara verið á fjarfundi með lögmanni sínum o.s.frv. En það er frekar erfitt að vera á fjarfundi úti á götu, svona þegar þú hefur ekki samastað, ef það eru aðstæðurnar sem er verið að senda fólk í. Kannski geta það einhverjir, kannski eru það einmitt þau sem falla ekki undir ákvæði þess að fá alþjóðlega vernd. En þau sem geta ekki sótt sér þennan rétt í gegnum dómstólana á Íslandi eru alveg tvímælalaust nær því að falla einmitt undir þann rétt að fá alþjóðlega vernd.

Alla vega. Áfram segir:

„Óhjákvæmilegt er að löggjafinn taki skýra afstöðu, að undangengnu efnislegu mati, til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt.“

Við erum að tala um stjórnarskrána, sem þarf að vísu að uppfæra, en svo lengi sem núverandi stjórnarskrá er í gildi þá þarf að framfylgja henni. Í nýlegum hæstaréttardómi í máli nr. 20/2002 frá 26. október gagnrýnir Hæstiréttur að:

„… í frumvarpi til breytinga á lögum um lax- og silungsveiði sé, líkt og í frumvarpi því sem hér er til umsagnar, [sé] tekið fram að ekki hafi þótt tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Um þetta segir Hæstiréttur: „Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til. [...] Við breytingar á verkefnum veiðifélaga með lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“

Ég segi aftur: Mér fallast bara hendur þegar öll þessi dæmi hrannast upp. Las meiri hluti nefndarinnar ekki þessarar umsagnir? Hafa þingmenn stjórnarliðsins ekki lesið þessar umsagnir? Komast þau að einhverri annarri niðurstöðu? Og hvernig komast þau að annarri niðurstöðu? Hvaða niðurstaða er það? Gæti einhver stjórnarliði — ég sá hv. þm. Birgi Þórarinsson kíkja hérna aðeins í gættina áðan og vinka okkur, eða ég vinkaði honum alla vega. Hann kinkaði kolli á móti en ekki mikið meira en það. Og ekkert fáum við til þess að tala um hérna.

Ég ætla að biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti klárað. (Forseti hringir.) Líklega næ ég ekki að klára yfirferðina í næstu ræðu en reyni það alla vega.