Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla reyndar að byrja á því að fylgja eftir því sem virðulegur forseti nefndi hér undir liðnum fundarstjórn forseta. Það er nú einu sinni þannig að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og hv. þingmenn Pírata hafa lagt fram beiðnir um að fenginn sé óháður aðili til að meta það hvort þetta frumvarp standist efnislega stjórnarskrá eða alþjóðlega samninga. Því hefur verið neitað af þinginu. Það hefur líka verið óskað eftir því við hæstv. forseta að hann aðstoði við að fá slíka úttekt því að það er augljóst við lestur þessa frumvarps og við lestur þeirra alþjóðalaga og stjórnarskrár sem við höfum farið hér í gegnum að hér er um mikil brot að ræða. Og bara rétt til að gefa virðulegum forseta dæmi þá brýtur c-liður 8. gr. frumvarpsins til að mynda í bága við 2. mgr. 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í henni segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.“

En akkúrat í c-lið 8. gr. er það þannig að þar er fjallað um það að einstaklingur, og þar með talin börn, sem reynir að tefja málið, ef við reynum að segja þetta á venjulegu máli, að ef einhver tengdur þessum viðkomandi einstaklingi, t.d. með fjölskylduböndum, gerir eitthvað sem telja má sem tafir þá komi það niður á umsókn þessa einstaklings. Þar sem barnið getur verið þessi einstaklingur þá er þessi c-liður 8. gr. nákvæmlega að gera það sem stendur hér í 2. gr., þ.e. það er verið að refsa barninu vegna stöðu eða athafna foreldra þess.

Virðulegi forseti. Barnasáttmálinn var lögfestur árið 2013. Hér er bara eitt dæmi af mörgum sem ekki bara við í Pírötum höfum verið að benda á heldur fjöldi umsagnaraðila og mannúðarsamtaka en stjórnarmeirihlutinn hér hefur ákveðið að hlusta ekki á eina einustu umsögn og ekki eina einustu ábendingu um það að hér sé verið að brjóta alþjóðasáttmála og stjórnarskrá. Mér þykir það, virðulegi forseti, ansi slæmt fordæmi og slæmur bragur á því ef forseti ætlar að láta það viðgangast að hér sé keyrt í gegn frumvarp sem allir eru búnir að vara við að brjóti í bága við stjórnarskrá og önnur lög, lögfesta samninga, sér í lagi þar sem þingsköp Alþingis, sérstaklega 8. gr., fela virðulegum forseta það mikilvæga hlutverk að tryggja að hér sé unnið eftir stjórnarskrá, þingsköpum og lögum. Ég spyr: Ef það fær virkilega að viðgangast er þá virðulegum forseta sætt í sínum stól?