153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála virðulegum forseta um að það er miður hve mikið þessi umræða hefur dregist á langinn. Ég hef því ítrekað lagt til, eins og við öll í Pírötum frá því að þessi umræða hófst, að málið gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til að það geti komið aftur inn í sal fullunnið. Ástæðan fyrir því að umræðan er að dragast á langinn núna er nefnilega sú að það er bara miklu meira að segja um mál sem við vitum ekki hvernig á að verða á endanum. Á 6. gr., um þjónustuskerðingu, að líta út eins og hún gerir í dag eða á að undanskilja fleiri hópa, eins og t.d. fólkið sem er innlyksa á Íslandi, er í umborinni dvöl eins og Rauði krossinn kallar það? Eða á kannski bara að fella það alveg út? Við vitum það ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við að velta öllum steinum í málinu. (Forseti hringir.) Allt getur það mögulega haft eitthvað að segja varðandi endanlega útgáfu, eins og stjórnarliðar skila málinu frá sér. Þess vegna þarf þetta að fara til nefndar núna. (Forseti hringir.) Það hefði sparað okkur marga daga að hlusta á þá kröfu Pírata þegar hún kom fyrst fram.